Eignarhaldsfélag sem hefur séð um umsýslu fyrir Heimavelli leigufélag slhf. fékk samtals rúmlega 480 milljónir króna á árunum 2015 til 2017 í umsýslutekjur vegna ráðgjafastarfa fyrir leigufélagið.
Eignarhaldsfélagið, sem heitir Heimavellir GP, er að mestu í eigu félaga í í eigu Magnúsar Pálma Örnólfssonar, fjárfestis og fyrrverandi starfsmanns Glitnis, Magnúsar Magnússonar, fjárfestis og stjórnarformanns Heimavalla, Halldórs Kristjánssonar, stjórnarmanns í Borgun, og Sturlu Sighvatssonar, athafnamanns og fyrrverandi framkvæmdastjóra Heimavalla. Auk þess áttu Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, og Arnar Gauti Reynisson, fjármálastjóri Heimavalla, báðir 2,5 prósenta hlut í félaginu.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag. Þar segir að Heimavellir GP hafi unnið að greiningu og framkvæmd fjárfestinga. Samkvæmt samningi fékk félagið hlutfallslega þóknun sem nam einu prósenti af fasteignamati fjárfestingareigna í rekstri Heimavalla leigufélags á ári.
Eiga rúmlega tvö þúsund íbúðir
Heimavellir er stærsta einkarekna leigufélag landsins. Til stendur að skrá það á markað á allra næstu vikum. Í lok árs í fyrra voru eignir þess metnar á 53,6 milljarða króna og jókst virði þeirra um 12,9 milljarða króna á milli ára.
Leigutekjur á árinu 2017 voru rúmlega þrír milljarðar, sem er tvöföldun frá árinu 2016. Matsbreyting á virði eigna, meðal annars vegna hækkandi fasteignamats, nam 3,8 milljörðum króna, samkvæmt tilkynningu frá félaginu.
Í árslok í fyrra átti félagið rúmlega tvö þúsund íbúðir, en það hefur tryggt sér kaup á 340 nýjum íbúðum á þessu ári.
Vaxtaberandi skuldir félagsins eru tæplega 35 milljarðar króna og eigið fé þess 17,6 milljarðar. Eiginfjárhlutfallið er 31,4 prósent.