Virði Spotify var um 30 milljarðar Bandaríkjadala, sem nemur um 3 þúsund milljörðum króna, við upphaf viðskipta með bréf félagsins í kauphöllinni í New York í dag. Fyrsta viðskiptadegi félagsins hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu enda þótti skráning félagsins óvenjulega stórt skref fyrir félagið, að mörgu leyti.
Það hefur aldrei skilað hagnaði, en fjármunum félagsins hefur verið eytt í vöxt fyrst og fremst. Spotify hefur á starfstíma sínum sótt sér um 2,7 milljarða Bandaríkjadala í fjármögnun, bæði láns- og hlutafé.
Stærstu hluthafar eru meðal annars fjárfestingasjóðurinn Tencent, Sony Music, Tiger Global og TCV sjóðurinn. Tapið í fyrra nam meira en 150 milljörðum króna, en engu að síður segja stjórnendur félagsins að félagið sé að halda áætlunum og gott betur. Tekjur muni aukast og tapi verði snúið í hagnað, áður en langt um líður.
Áskrifendur að þjónustu Spotify eru nú yfir 70 milljónir, en fyrirtækið ráðgerir að stækka enn meira og hraðar á næstu árum, ekki síst í Asíu. Helsti samkeppnisaðilinn er Apple en áskrifendur að tónlistarþjónustu fyrirtækisins eru 38 milljónir.
JUST IN: Spotify opens trading at $165.90 on the New York Stock Exchange https://t.co/CrFEF5rAPk pic.twitter.com/keC7MajBQ8
— Bloomberg (@business) April 3, 2018
Spotify hóf starfsemi 7. október 2008, á afar víðsjárverðum tímum í fjármálaheiminum. Þá römbuðu markaðir til falls víða um heim, en félagið hefur á tæpum tíu árum vaxið jafnt og þétt og eru glæsilegar höfuðstöðvar félagsins í Stokkhólmi.
Virði félagsins er nú á við fjórfalt virði íslenska hlutabréfamarkaðarins í heild sinni, en virði hans er nú um 780 milljarðar króna.