Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR), sem hefur einkarétt á að framleiða og selja grófkornað nef- og munntóbak, seldi 37,6 tonn af slíku í fyrra. Það er aðeins minna en fyrirtækið seldi árið 2016, þegar salan var rétt tæplega 40 tonn, sem var sölumet. Þetta má sjá yfirliti yfir mánaðarlegar sölutölur ÁTVR.
Þar kemur einnig fram að á fyrstu tveimur mánuðum ársins hefur selst meira af nef- og munntóbaki en nokkru sinni áður á því tímabili. Á metárinu 2016 seldust 5,3 tonn af nef- og munntóbaki. Í janúar og febrúar 2018 hafa selst 6,2 tonn, eða 17 prósent meira en á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2016.
Fjórfaldast frá aldarmótum
Ástæðu þess að tóbakssala dróst saman í fyrra má ugglaust rekja til þess að tóbaksgjald var hækkað í byrjun árs 2017. Við það hækkaði verð á dós af nef- og munntóbaki sem ÁTVR framleiðir, og er oftast kallað „Ruddi“, um 60 prósent í verði. Algengt smásöluverð eftir þá hækkun var um þrjú þúsund krónur á dós.
Svo virðist sem að notendur tóbaksins setji þá hækkun ekki lengur mikið fyrir sig því að neyslan hefur aukist á ný það sem af er árinu 2018.
Salan á grófkornuðu tóbaki hefur aukist feykilega mikið á undanförnum árum. Árið 2000 seldust til að mynda ríflega 10 tonn af neftóbaki, og því hefur salan fjórfaldast frá þeim tíma.
Það hefur áður gerst að hækkun á tóbaksgjaldi hefur hægt á sölu tóbaksins. Það gerðist árin 2012 og 2013 eftir að tóbaksgjald var tvöfaldað. Eftir þau ár fór salan hins vegar að aukast aftur á ný og náði, líkt og áður sagði, 40 tonnum árið 2016.
Einokun lengi
Árið 1996 var fínkornað munn- og neftóbak bannað með lögum á Íslandi. Það þýðir að tóbakið sem ÁTVR framleiðir hefur verið í nánast einokunarstöðu á markaðnum síðan lögin voru sett. Samhliða hefur neysla á munntóbaki aukist töluvert og þeir sem neyta þess kaupa annaðhvort smyglvarning á svörtum markaði, þar sem er mikið framboð, eða nota tóbakið sem ÁTVR framleiðir sem munntóbak.
Þessi aukna neysla hefur skilað auknum tekjum í vasa hins opinbera svo um munar, bæði vegna hækkunar á tóbaksgjaldi og stóraukinnar eftirspurnar. Í fyrra skilaði til að mynda tóbaksgjald, sem leggst á allar tóbaksvörur, hvort sem um er að ræða vindlinga og sígarettur eða hið grófkornaða nef- og munntóbak sem ÁTVR framleiðir og selur, um sex milljörðum króna í ríkiskassann. Því er um umtalsverða tekjulind að ræða fyrir ríkissjóð.
Miklar tekjur af sölu á ríkisframleiddu tóbaki
Tekjur ÁTVR af sölu tóbaks drógust í heild saman á árinu 2016. Þær voru tveimur prósentum lægri en árið 2015 eða alls 9,3 milljarðar króna. Þar munaði mestu um að sala á sígarettum dróst saman um 6,1 prósent og á vindlum um 7,5 prósent.
Sala á nef- og munntóbaki hélt hins vegar, líkt og áður sagði, áfram að aukast og jókst samtals um 10,7 prósent á árinu. Salan skilaði alls 827,6 milljónum króna í kassann árið 2016 án virðisaukaskatts. Árið 2015 var selt ríkisframleitt tóbak fyrir 748 milljónir króna.