Donald J. Trump Bandaríkjaforseti ræddi mikið um Kína í kosningabaráttu sinni, ekki síst á fjölmennum fundum í miðríkjunum. Hann lofaði því að fjölga störfum í Bandaríkjunum með því að hækka tolla á innflutning á vörum frá Kína.
Nú hefur hann hrint þessu í framkvæmd, þvert á ráðleggingar frá sínum nánasta efnahagsráðgjafa, Gary Cohn, sem hætti störfum vegna ágreinings við forsetann.
Bandaríkin hafa nú haft frumkvæði að tollastríði við Kína, og birtu í gær lista yfir um 1.333 vörutegundir sem munu bera 25 prósent tolla. Vörurnar sem um ræðir eru fjölbreytilegar. Þar á meðal eru varahlutir í vélar, gervihnettir, fatnaður og lyf, svo fátt eitt sé nefnt.
China is the fourth-largest international market for Oregon food products.
— OPB (@OPB) April 3, 2018
Newly announced tariffs could take their toll on state exports. https://t.co/fF8k0hEoaF
Bandaríkin höfðu áður lýst yfir tollum sem koma harkalega við kínverska hagsmuni, með 25 prósent tolli á stálinnflutning og 10 prósent toll á ál. Kínverjar hafa brugðist við þessum aðgerðum Bandaríkjastjórnar með því að boða hækkun á tollum á ýmsum vörum, sem Bandaríkin flytja til Kína.
Stjórnvöld í Peking hafa harðlega gagnrýnt aðgerðir Bandaríkjastjórnar, og hafa hvatt til stillingar þegar kemur að breytingum á viðskiptasamningum sem nú þegar eru í gildi.
Trump telur að Bandaríkin hafi farið illa út úr viðskiptum við Kína á undanförnum árum, og vill með hækkun tolla reyna að tryggja að bandarísk fyrirtæki, ekki síst í þungaiðnaði, nái vopnum sínum á nýjan leik.
Eins og rakið var í fréttaskýringu á vef Kjarnans í gær, þá bendir margt til þess að alþjóðlegir fjárfestar óttist afleiðingar þess að tollstríðið hefjist af fullum krafti.