Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður og kafteinn Pírata, er hætt í flokknum. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook hjá henni.
Í samtali við Kjarnann segir Birgitta að það sé langt síðan hún hætti í flokknum. Hún segist hafa upplifað takmarkaðan áhuga fyrir hennar helsta áherslumáli, sem er upplýsinga- og tjáningafrelsið. „Það var ein af megin ástæðunum fyrir því að ég stofnaði Pírata. Mér fannst ég ekki skynja og fann engan áhuga þar frekar en annars staðar fyrir þessu,“ segir Birgitta.
Hún segist hafa farið inn á Alþingi fyrst fyrir átta árum með væntingar um raunverulegar breytingar á samfélaginu eftir hrunið. „Ég lét mig dreyma um aðkomu almennings að málum, nýja stjórnarskrá og einhverjar raunverulegar breytingar þannig að þeir sem fara með völdin axli ábyrgð þegar þeir klúðra einhverju. Ekkert af þessu hefur gengið eftir.“
Aðspurð um hvort hún hafi yfirgefið flokkinn í góðu eða slæmu segir hún: „Ég var í fýlu en það er langt síðan ég hætti í henni.“
Ég er hætt í hljómsveitinni (Píratar) sem ég stofnaði. Það er léttir.
Posted by Birgitta Jónsdóttir on Thursday, April 5, 2018