Af hálfu Háskóla Íslands er beðist velvirðingar á ágöllum við málþing um plastbarkamálið árið 2012 sem hefur gefið tilefni til endurskoðaðs verklags við undirbúning og kynningu viðburða sem haldnir eru í nafni Háskóla Íslands.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, um lyktir könnunar á þætti prófessors í plastbarkamálinu.
Í niðurstöðum íslensku rannsóknarnefndarinnar sem Landspítali og Háskóli Íslands settu á stofn og kynntar voru þann 6. nóvember síðastliðinn kom fram að lífi þriggja einstaklinga hafi verið kerfisbundið stofnað í hættu vegna plastbarkaígræðslu á Karolinska-sjúkrahúsinu og að allir hafi þeir átt undir högg að sækja í samfélaginu.
Fram kom einnig að ekki verði annað séð en að Tómasi Guðbjartssyni, lækni Andemariam Beyene, sem fyrstur gekkst undir plastbarkaígræðslu í júní 2011, hafi gengið gott til með plastbarkaígræðslunni en að hann hafi látið blekkjast af Maccharini og breytt tilvísun en það varði lög um lækna, 11. gr., sem þá voru í gildi um vönduð vinnubrögð og jafnframt að ákvarðanataka í aðdraganda aðgerðarinnar hafi verið ómarkviss.
Í skýrslunni var nefnt að það hefði verið óæskilegt að Andemariam skyldi sjálfur tala á málþingi HÍ því staða hans hafi verið erfið og hann hafi átt mikið undir læknum sínum. Þess má þó geta að Andemariam var þá þegar kominn með stoðnet til að halda barkanum opnum og hefur málþingið verið gagnrýnt, m.a. af Kjell Asplund, formanni siðaráðs lækninga í Svíþjóð og fyrrverandi landlækni Svíþjóðar en hann var gestur á málþingi í H.Í. síðastliðinn vetur.
Vinnubrögð Tómasar aðfinnsluverð
Segir í yfirlýsingu rektors að í kjölfar skýrslunnar um plastbarkamálið hafi Háskóli Íslands leitast við að greina ábyrgð stofnunarinnar og starfsmanna, skoða hvað fór úrskeiðis í málinu, læra af því og ákveða viðbrögð.
„Það er afstaða rektors að fallast beri á þá niðurstöðu í skýrslu óháðu rannsóknarnefndarinnar að vinnubrögð prófessorsins sem tengjast birtingu nefndrar vísindagreinar hafi verið aðfinnsluverð,“ segir í yfirlýsingunni. Prófessorinn sem um ræðir er Tómas Guðbjartsson. Sé þá einkum litið til þess að hann skyldi ekki hafna þátttöku í frekari skrifum greinarinnar og draga nafn sitt til baka af lista meðhöfunda um leið og honum urðu ljósir annmarkar á efni hennar.
Það sé jafnframt afstaða rektors á grundvelli skýrslu óháðu rannsóknarnefndarinnar að aðkoma prófessorsins við undirbúning málþingsins sem haldið var við Háskóla Íslands árið 2012 sé aðfinnsluverð. „Upplýsingar um aðgerðina og ástand sjúklingsins, er Háskóla Íslands voru látnar í té fyrir málþingið, komu frá prófessornum. Á móti koma ýmsir þættir sem eru prófessornum til málsbóta. Hann reyndi árangurslaust að koma lýsingum í vísindagreininni á bata sjúklings í ásættanlegt horf, hann hefur óskað eftir því að fá nafn sitt dregið til baka af lista höfunda umræddrar vísindagreinar og hann átti umtalsverðan þátt í því að varpa ljósi á plastbarkamálið með framlagningu umfangsmikilla gagna og útskýringa.
Þrátt fyrir að það sé niðurstaða rektors að háttsemi prófessorsins, eins og greint er að framan, teljist aðfinnsluverð verður með hliðsjón af heildarmati á málavöxtum og í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga ekki talið að lagaskilyrði séu fyrir hendi til að beita formlegum viðurlögum vegna brota í starfi á grundvelli laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Til þess er þá einnig litið, þegar horft er fram á veginn, að þær aðfinnslur og athugasemdir sem gerðar eru við störf prófessorsins í rannsóknarskýrslunni hafa verið birtar opinberlega.“