Bandarísk stjórnvöld hafa samþykkt viðskiptabann gegn sjö rússneskum auðmönnum og 17 hátt settum rússneskum embættismönnum. Í tilkynningu frá Steve Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, segir að aðgerðirnar beinist að þessum hópi, þar sem hann sé innarlega í kjarna spilltrar valdaklíku í Rússlandi.
Segir í tilkynningunni frá Mnuchin að aðgerðirnar séu meðal annars hluti af aðgerðum vegna afskipta Rússa af kosningunum í Bandaríkjunum 2016, sem Donald Trump vann og tók síðan við sem forseti Bandaríkjanna, í janúar 2017.
Sjálfur hefur Trump marg ítrekað að ekkert óeðlilegt hafi átt sér stað, og Rússar hefi ekki haft nein afskipti af kosningabaráttunni. Hann hefur sagt að rannsóknir á tengslum Rússa við fólk innan Bandaríkjanna, meðal annars í framboði Trumps, séu hluti af mestu nornaveiðum í sögu Bandaríkjanna.
Að þessu leyti er tilkynningin frá fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna að miklu leyti á skjön við málflutning forsetans.
Aðgerðirnar eru einnig hluti af víðtækum refsiaðgerðum gegn Rússum, vegna nethernaðar Rússa, víða í heiminum.
Tólf fyrirtæki í eigu auðmannanna, rússneskur banki og útflytjendur rússneskra vopna eru meðal þeirra sem viðskiptabannið tekur til, að því er segir í tilkynningunni, sem breska ríkisútvarpið BBC greinir frá.
Breaking News: The U.S. imposed sanctions on some of Russia's richest men and top officials, punishing Vladimir Putin's inner circle for Russian aggressions https://t.co/7mbZm9Pv34
— The New York Times (@nytimes) April 6, 2018
Meðal þeirra sem viðskiptabanið nær til - og frysting á eignum í Bandaríkjunum einnig - eru Oleg Deripaska, einn kunningja Vladimír Pútins Rússlandsforseta og Paul Manaforts kosningastjóra Trumps. Deripaska hefur auðgast verulega á álframleiðslu og viðskiptum í áliðnaði, en eignir hans hlaupa á milljörðum Bandaríkjadala.
Suleiman Kerimov og fjölskylda hans eru einnig á lista þeirra sem viðskiptabanið nær til. Kerimov á eina stærstu gullframleiðslu Rússlands.
Alexander Torshin, sem er innarlega í pólitískum hring Pútíns, einnig á listanum en hann er talinn hafa fjármagnað verulega Samtök byssueigenda í Bandaríkjunum (NRA), í gegnum skúffufélög.