Um nokkurt skeið hefur verið til skoðunar að Ríkislögreglustjóri, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Tollstjóri sameinist um húsnæði á nýjum stað. Margvísleg tækifæri eru talin vera til staðar til að auka samvinnu milli stofnananna og ná fram meiri árangri í sameiginlegum verkefnum.
Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans en húsnæðismál Ríkislögreglustjóra, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Tollstjóra voru á dagskrá ríkisstjórnarinnar í dag.
Jafnframt segir í svarinu að samnýting stofnananna á sérhæfðum rýmum geti stuðlað að meiri hagkvæmni í húsnæðisrekstri þeirra. Nýtt húsnæði myndi fela í sér nútímalegt vinnuumhverfi með opnum rýmum og möguleikum á þróun vinnubragða, til að mynda með aukinni teymisvinnu.
Framkvæmdasýsla ríkisins hefur unnið þarfagreiningu og húsrýmisáætlun fyrir sameiginlegt húsnæði lögreglunnar og tolls þar sem heildarhúsnæðisþörf er talin vera um 20.168 fermetrar, þar af um 7.200 fermetrar vegna sameiginlegra rýma.
Í frétt RÚV um málið kemur fram að gert sé ráð fyrir því að skoðað verði nánar hvort leigulóð ríkisins við Klepp geti hugsanlega komið til greina undir slíkt húsnæði.
Í svari ráðuneytisins segir að stofnanirnar hafi lagt mikla áherslu á að staðsetning sameiginlegs húsnæðis henti þeim öllum. Miðað við rúmlega 20 þús. fermetra húsnæðisþörf sé ljóst að byggja þyrfti nýtt húsnæði að öllu eða verulegu leyti undir sameiginlega starfsemi lögreglunnar og tolls.
„Mjög ólíklegt er að til staðar sé húsnæði á markaðnum sem uppfyllir allar þær sértæku kröfu sem gerðar eru til þessa húsnæðis. Vegna þessa er til skoðunar er að ríkið útvegi tiltekna lóð sem uppfylli nauðsynlegar kröfur og auglýst verði eftir tilboði í byggingu húsnæðis á þeim stað. Í ljósi þeirra tækifæra sem felast aukinni samvinnu milli þessara stofnana og aukinni hagkvæmni í húsnæðisrekstri þeirra verður unnið að því að stofnanirnar verði færðar í sameiginlegt sérhæft húsnæði,“ segir í svarinu.