Innleiðingahalli Íslands hvað varðar EES-tilskipanir er nú 1,8 prósent en var í maí 2017 2,2 prósent. Ísland er þó enn í neðsta sæti þegar innleiðingarhalli EES-ríkjanna er tekinn saman. Þetta kemur fram í frétt utanríkisráðuneytisins.
Frammistöðumat Eftirlitsstofnunar EFTA frá því í maí 2017 fram í nóvember sama ár var kynnt þann 6. apríl síðastliðinn. Þar er gerð grein fyrir árangri EES-ríkjanna innan EFTA við innleiðingu EES-gerða. Þá er lögð sérstök áhersla á innleiðingu tilskipana en hægt er að bera þær upplýsingar saman við innleiðingu ESB-ríkja, en það sama á ekki við um innleiðingu reglugerða.
Í samskiptum Kjarnans við ESA kemur fram að þessar tölur sem nú birtast hafa ekki verið bornar saman við tölur ESB, það verði aftur á móti gert í sumar. Enn fremur kemur fram að Ísland hafi bætt sig, eins og áður segir, sérstaklega þegar kemur að reglugerðum.
Samkvæmt yfirliti ESA er Ísland eina EES-ríkið innan EFTA sem hefur bætt frammistöðu sína frá því í maí 2017 þegar kemur að innleiðingu á tilskipunum. Ísland er þó enn í neðsta sæti þegar innleiðingarhalli EES-ríkjanna er tekinn saman yfir umrætt tímabil.
Fimmtán tilskipanir hafa ekki verið innleiddar að fullu á réttum tíma hér á landi. Í Noregi jókst innleiðingarhalli frá síðasta frammistöðumati og fór hann úr 0,2 prósent í 0,5 prósent og innleiðingarhalli jókst lítillega hjá Liechtenstein úr 1,2 prósent í 1,3 prósent. Í frétt ráðuneytisins segir að frá ársbyrjun 2011 hafi það verið markmið ESB og ESA að aðildarríkin haldi innleiðingarhallanum undir 0,5 prósent.
Upptaka EES gerða er grundvöllur fyrir aðgengi Íslands og hinna EES ríkjanna að innri markaði Evrópusambandsins. Það að Ísland standi sig svona illa í innleiðingum þýðir að íslenskir ríkisborgarar, og ríkisborgarar innan alls EES svæðisins, njóta ekki að fullu kosta innri markaðarins.