Alls munu 87 milljónir notenda Facebook fá skilaboð frá fyrirtækinu í dag, þar sem þeir verða upplýstir um að upplýsingum um þá hafi verið deilt með Cambridge Analytica, með hætti sem ekki samrýmdist skilmálum Facebook.
Þá mun Facebook senda öllum notendum, sem nú eru rúmlega tveir milljarðar um allan heim, skilaboð þar sem notendur verða upplýstir um hvernig upplýsingar um þá eru notaðar og hvaða forrit hafa aðgang að þeim, auk þess sem fjallað verður um skilamála Facebook.
Óhætt er að segja að Facebook standi í ströngu þessi misserin, en Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook kemur fyrir þingnefnd í Bandaríkjunum 11. apríl, og mun þá svara spurningum sem snúa að persónuvernd og hvernig fyrirtækið hefur farið með gögn notenda.
Fyrirtækið hefur mátt þola mikla gagnrýni, ekki síst eftir að það komst fram í dagsljósið að Cambridge Analytica hafði komist með óeðlilegum hætti yfir upplýsingar um notendur, en fyrirtækið starfið meðal annars náið með forsetaframboði Donalds Trumps árið 2016 og Brexit-hreyfingunni í Bretlandi sama ár.
Verðmiðinn á fyrirtækinu hefur fallið um nærri 100 milljarða Bandaríkjadala, eða sem jafngildir um 10 þúsun milljörðum króna, frá því að aðferðir Cambridge Analytica voru opinberaðar.