Unnar Örn Ólafsson, formaður FFR (Félags flugmálastarfsmanna ríkisins), segir það ólíðandi að launaskrið hjá stjórnendum Isavia, dótturfélagi íslenska ríkisins, sé staðreynd á sama tíma og kröfur séu uppi um að fólkið á gólfinu fá litla launahækkun. „Það er ólíðandi að horfa upp á launahækkanir stjórnenda taka tugprósenta hækkunum á milli ára á meðan almenningur þarf að sætta sig við sín 1-3%. Ef stjórnendur vilja að starfsfólk þeirra stilli kröfum sínum í hóf verða þeir sömuleiðis að læra þá list,“ segir Unnar Örn í orðsendingu til félagsmanna.
Á nýliðnum aðalfundi Isavia gerði Björn Óli Hauksson, forstjóri, stöðuna á vinnumarkaði að umtalsefni, og sagði þar að staðan á vinnumarkaði væri um margt áhyggjuefni. Unnar Örn segir í orðsendingu sinni: „Kröfurnar væru of miklar og stefndu framkvæmdum við Keflavíkurflugvöll í hættu. Á þessum sama fundi kom fram í ársreikningi fyrirtækisins að laun og þóknanir stjórnenda Isavia hefðu hækkað um tæp 15% á milli ára. Kjarninn varpar síðan ljósi á hvernig þessi hækkun skiptist á milli stjórnenda og kemur þá í ljós að áhyggjufullur forstjóri Isavia, hefur fengið 20% launahækkun á milli ára. Stjórn FFR (Félags flugmálastarfsmanna ríkisins) vill því koma eftirfarandi vangaveltum á framfæri til forstjóra Isavia: Þykir honum forsvaranlegt að þiggja 20% launahækkun á sama tíma og hann biður hinn almenna starfsmann Isavia um að stilla sínum kröfum í hóf? Má hinn almenni starfsmaður gera ráð fyrir sambærilegum launahækkunum? Er 20% hækkun launa hófleg krafa að mati forstjóra Isavia? Ef svarið við þessum spurningum er nei, viljum við gjarnan fá svar við því hvernig Björn Óli ætlast til þess að stjórn FFR sannfæri sína félagsmenn um að stilla kröfum sínum í hóf á sama tíma og hann þiggur sjálfur 20% launahækkun á einu ári?“ segir í orðsendingunni.