Airbnb er orðið næstumfangsmesta gistiþjónusta landsins og þrisvar sinnum stærri en sú þriðja umfangsmesta sem eru gistiheimili. Flestar gistinætur voru þó seldar á hótelum, alls 4,3 milljónir á árinu 2017. Í gegnum Airbnb voru 3,2 milljónir gistinótta seldar í fyrra. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um ferðaþjónustuna.
Um 11,6 milljónir gistinótta voru seldar á árinu 2017 á öllum tegundum gististaða.
Hótelin eru ennþá með mestu hlutdeildina á gistiþjónustumarkaðnum eða 37 prósent. Þar á eftir kemur Airbnb með um 30 prósent. Hlutdeild Airbnb hefur vaxið um rúm 11 prósentustig en hlutdeild allra annarra tegunda af gistiþjónustu dregist saman.
Tíu tekjuhæstu velta 1,3 milljörðum króna
Tekjur leigusala í gegnum Airbnb á Íslandi námu 19,4 milljörðum á árinu 2017 og jukust um 109% frá fyrra ári. Meðalverð fyrir sólarhringsdvöl á Airbnb er misjafnt eftir því hvers eðlis gistirýmið er. Þegar um er að ræða leigu á öllu heimilinu er meðalverðið um 21,6 þúsund krónur. Til samanburðar er meðalverð á hótelherbergi í Reykjavík um 19,7 þúsund. Heilt heimili getur hýst fleiri gesti en hótelherbergi alla jafna og er því meðalverð á hvern einstakling lægra á Airbnb en á hótelum.
Þá er velta á Airbnb sem hlutfall af veltu hótela töluvert lægra en fjöldi gistinótta á Airbnb sem hlutfall af fjölda gistinótta hótela. Það gefur einnig til kynna að hver gistinótt sé ódýrari á Airbnb en á hótelum á Íslandi. Airbnb er því ekki bara öðruvísi upplifun á gistiþjónustumarkaðinum heldur einnig ódýrari valkostur. Gefur það ferðamanninum möguleika á því að dvelja lengur fyrir sama verð og á hótelum eða að dvelja í sambærilegan tíma og verja meiri útgjöldum í aðra útgjaldaliði en gistingu.
Tekjuhæsti leigusali síðasta árs velti 230 millónum og var með 46 útleigurými í gegnum Airbnb. Rýmin geta verið allt heimilið, sameiginlegt herbergi eða sérherbergi. Þá eru eiginleikar á borð við gæði og fjölda gesta sem rýmið hýsir einnig ólíkir á milli rýma. Sá leigusali sem var á meðal þeirra tekjuhæstu og var með mestar tekjur á hvert útleigurými velti rúmum 12 milljónum á hvert rými yfir 12 mánaða tímabil eða rúmlega milljón í hverjum mánuði á hvert rými. Á sama tíma er mánaðarlegt leiguverð á hvern fermetra á hefðbundnum leigumarkaði í kringum þrjú þúsund krónur fyrir tveggja herbergja íbúðir. Það gerir um 210 þúsund sé íbúðin 70 fermetrar. Meðalfermetraverð lækkar svo eftir því sem herbergjum fjölgar og íbúðin stækkar. Það er því ljóst að leigusalar geta aflað umtalsvert meiri tekna með því að leigja erlendum ferðamönnum í gegnum Airbnb en með því að leigja á hefðbundnum leigumarkaði. Hefur þessi hvati leitt til þess að íbúðir á hefðbundnum leigumarkaði eru færri en ella sem veldur að öðru óbreyttu hækkunarþrýstingi á leiguverð.
Fer Airbnb fram úr hótelunum?
Í skýrslunni er því velt upp hvort Airbnb muni fara fram úr hótelum á árinu. Gistinóttum fjölgaði á árinu 2017 um 2,1 milljón. Nemur það um 24 prósent fjölgun frá árinu 2016. Þá tók Airbnb til sín um 1,6 milljónir gistinótta eða um 76 prósent af fjölgun gistinótta á árinu 2017. Vöxtur Airbnb hefur verið margfalt hraðari en vöxtur annars konar gistiþjónustu undanfarin ár. Fyrir vikið hefur hagur skráðrar gistiþjónustu á Íslandi ekki vænkast í samræmi við þá miklu fjölgun ferðamanna sem átt hefur sér stað undanfarið. Hefur fjölgunin þess í stað að mestu drifið áfram vöxt deilihagkerfisins. Skýrsluhöfundar telja að um gæti verið að ræða aukið vanmat á verðmætasköpun á hvern ferðamann samhliða miklum vexti Airbnb. „Ljóst er að mikið af þeim verðmætum sem þar verða til, og renna m.a. til heimila landsins, er ekki skráð í þeim gögnum sem eru til grundvallar þegar verðmætasköpun ferðamanna er skoðuð.“
Landsbyggðin drífur vöxt Airbnb
Umfang deilihagkerfisins hefur vaxið mun hraðar á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu á síðastliðnum tveimur árum. Á árinu 2015 seldust 18 þúsund gistinætur á landsbyggðinni en 1,3 milljónir á árinu 2017. Fjöldi seldra gistinótta á landsbyggðinni var því 73 sinnum fleiri á árinu 2017 en á árinu 2015.
Hraður vöxtur í umfangi Airbnb á landsbyggðinni hefur leitt til þess að um fjórar af hverjum tíu seldum gistinóttum í gegnum Airbnb eru nú á landsbyggðinni. Það er umtalsverð breyting frá árinu 2015 þegar umfang Airbnb var nánast alfarið bundið við höfuðborgarsvæðið.