Tveir varabæjarfulltrúar í Hafnarfirði, þau Borghildur Sölvey Sturludóttir og Pétur Óskarsson, hafa óskað eftir að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið taki til umfjöllunar ákvarðanir Guðlaugar Kristjánsdóttur um setu í og úr bæjarstjórn og hins vegar missi kjörgengis og þá samhliða lausn frá störfum bæjarfulltrúans Einars Birkis Einarssonar.
Hefur lögmaður þeirra sent ráðuneytinu formlegt erindi þessa efnis, að það taki málið til formlegrar athugunar á grundvelli sveitarstjórnarlaga þar sem mælt er fyrir um almennt stjórnsýslueftirlit ráðherra með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum. Verði málið ekki tekið til umfjöllunar formlega af ráðuneytinu áskilja þau sér rétt til að leggja fram stjórnsýslukæru vegna málsins.
Vilja þau meina að Guðlaug hafi farið í ótímabundið leyfi frá störfum á grundvelli ákvæðis sveitarstjórnarlaga sem geri ráð fyrir fjarveru í að minnsta kosti einn mánuð vegna forfalla. Var tilkynnt um forföll Guðlaugar þann 14. mars en hún tók sæti sitt aftur í sveitarstjórninni á fundi hennar í gær. Vilja þau Borghildur og Pétur meina að þar sem hún hafi verið styttri tíma en einn mánuð frá störfum stangist það á við lagaákvæðið.
Síðara umkvörtunarefni þeirra í erindinu lýtur að kjörgengi Einars Birkis Einarssonar. Þar vísa þau til þess að Einar sé með lögheimili í Hafnarfirði á heimili systur sinnar. hann hins vegar búi í Kópavogi ásamt sambýliskonu sinni. Í lögum um kosningar til sveitarstjórnar segir að kjörgengur sé sá sem meðal annars á kosningarétt í sveitarfélaginu en þar er gerður áskilnaður um lögheimili í sveitarfélaginu. Vilja þau að ráðuneytið afli upplýsinga frá Einari um búsetu hans svo unnt sé að staðfesta hvort hann njóti enn kjörgengis eða hvort leysa beri hann frá störfum sökum missi þess.
Hitafundur í gær
Málið á sér nokkuð skrautlegan aðdraganda en Guðlaug og Einar Birkir sögðu sig nýlega úr Bjartri framtíð en þau hafa starfað í meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Þau munu starfa út kjörtímabilið sem óháðr bæjarfulltrúar. Ástæða úrsagnarinnar var sögð vera samstarfsörðugleikar.
Í gær ákvað meirihlutinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar síðan á hitafundi að víkja Borghildi og Pétri úr nefndum og ráðum á vegum bæjarins, sem þau hafa setið í fyrir hönd Bjartrar framtíðar, og aðrir settir inn í staðinn. Guðlaug lagði þetta til á bæjarstjórnarfundinum í gær, en hún er forseti bæjarstjórnar.
Borghildur og Pétur hafa setið í skipulags- og byggingarráði fyrir flokkinn sem og hafnarstjórn en þar var Pétur varamaður.
Í frétt Fjarðarfrétta af bæjarstjórnarfundinum í gær kom fram að svo mikill hiti hafi verið á fundinum að óskað hafi verið eftir fundarhléi þar sem gestum var vísað út. Í hléinu barst síðan mikill hávaði frá salnum og ljóst að bæjarfulltrúar öskruðu hvor á annan.
Tillagan um tilfærslur þessar í nefndum og ráðum voru samþykktar eftir hléið, en fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna sátu hjá.
Formaðurinn stígur inn
Björt Ólafsdóttir formaður Bjartrar framtíðar skrifaði á stjórnarsíðu flokksins í dag að henni þykir atburðarásin bæði dapurleg og skringileg.
„Því er ekki að neita að það er mér þungbært að hafa eftir þessa atburðarás. Hún er ekki sú sem ég hefði óskað fyrir Bjarta Framtíð. Þetta eru ekki þau stjórnmál sem við viljum kenna okkur við. Það eru hinsvegar framboð, ýmist í burðarliðnum, eða komin fram sem eru okkar, eða okkar fólk er partur af sameiginlegum eða óháðum listum. Eftir allt sem á undan er gengið er ljóst að framboð í Hafnafirði er í upplausn. Þar er fólk þreytt eftir átök og rugling og þau sem skipuðu sæti á sameiginlegum lista Bjartrar Framtíðar og Viðreisnar hafa dregið sig í hlé með miklum trega og eftirsjá,“ segir Björt.
Eftirfarandi hef ég sett inn á stjórnarsíðu Bjartrar Framtíðar rétt í þessu: Dapurleg er atburðarásin hjá Bjartri...
Posted by Björt Ólafsdóttir on Thursday, April 12, 2018