Lagt er til að yfirstjórn Alþingis og forsætisráðherra setji nýjar reglur um hagsmunaskráningu þingmanna sem gildi einnig um ráðherra sem eru ekki þingmenn og sem taki einnig til skulda, sem og hagsmuna nánustu fjölskyldu.
Þetta kemur fram í minnisblaði sem starfshópur um eflingu trausts í stjórnmálum og stjórnsýslu sendi til forsætisráðherra í gær.
Jafnframt er lagt til að séð verði til þess að innra eftirlit þingsins tryggi að allir þeir sem reglurnar eiga við um, gefi þessar upplýsingar reglulega og að viðurlög séu fyrir hendi sem beita má þá sem gefa rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.
Í þriðja lagi er lagt til að viðeigandi aðilum verði falið að undirbúa lagafrumvarp um vernd uppljóstrara sem tryggi að hið opinbera veiti þeim sem skýra frá ólöglegu eða siðlausu athæfi fyrirtækja og stofnana lagalega vernd gegn hvers kyns hefndaraðgerðum. Stefnt verði að því að leggja frumvarpið fram í upphafi þings sem kemur saman haustið 2019. Starfshópurinn lýsir sig reiðubúinn til að aðstoða við gerð frumvarpsins.
Kröfur aukast
Í minnisblaðinu kemur fram að í nágrannalöndum okkar hafi reglur um hagsmunaskráningu ráðherra, æðstu embættismanna og kjörinna fulltrúa þróast í þá átt að gerðar eru meiri kröfur um að þeir sem gegna slíkum störfum veiti upplýsingar um eigin fjárhagsmálefni og nátengdra aðila.
Hér á landi hafa um skeið gilt reglur um hagsmunaskráningu þingmanna og upplýsingaskyldu ráðherra. Núgildandi reglur kveða á um að þingmenn skrái upplýsingar um launaða starfsemi, fjárhagslegan stuðning, gjafir, utanlandsferðir og eftirgjöf eftirstöðva skuldar, eignir og samkomulag við fyrrverandi eða verðandi vinnuveitanda.
Eftirfylgni engin
Bent er á að eftirfylgni með þessum reglum hafi hins vegar verið engin af hálfu þingsins og þingmönnum hafi í raun verið í sjálfsvald sett hvort þeir hlíta þeim. Það sé helst ef fjölmiðlar hafa farið að grafast fyrir um hagsmunaskráninguna að þrýstingur skapast á þingmenn að fara eftir reglunum. Ráðherrar lúti sömu reglum og þingmenn um hagsmunaskráningu jafnvel þótt þeir sitji ekki á þingi.
Vandinn við núverandi fyrirkomulag er tvíþættur, að mati starfshópsins. Annars vegar varði hann skort á eftirfylgni og almennt formleysi við að framfylgja settum reglum. Hins vegar varði hann reglurnar sjálfar, því þær þurfa að vera víðtækari en nú er.
Íslensk stjórnvöld hvött til að setja ítarlegri reglur
Í tilmælum sem fram hafa komið í úttektarskýrslum GRECO hafa íslensk stjórnvöld verið hvött til að setja ítarlegri reglur og betur útfærðar. Þessi tilmæli eru endurtekin í skýrslu um síðustu úttekt GRECO sem fram fór síðastliðið haust en lokagerð hennar birtist í gær.
„Þar er annars vegar bent á að ekki fáist full mynd af fjárhagslegum tengslum og hagsmunum fólks nema skuldir þess séu teknar með í reikninginn og enn fremur að það sé mikilvægt að upplýsingar um nánustu fjölskyldu, það er maka og börn á framfæri, fylgi með. Upplýsingar um fjárhag maka og barna þurfa þó ekki nauðsynlega vera opnar almenningi. Eins leggur GRECO mikla áherslu á eftirfylgni því ljóst er að eigi reglur af þessu tagi að virka þurfa menn að horfast í augu við að það hafi afleiðingar, formlegar eða óformlegar, að hlíta þeim ekki,“ segir í minnisblaðinu.
Vantar lög um vernd uppljóstrara
Bent er enn fremur á að á síðustu áratugum hafi viðhorf til uppljóstrara og uppljóstrana í atvinnulífi og opinberu lífi breyst töluvert. Í stað höfuðáherslu á hollustu við vinnuveitanda, samstarfsfólk og vinnustað, hafi skyldur borgarans við samfélagið hlotið meira vægi. Það sé almennt viðurkennt að mikilvægt er að starfsfólk fyrirtækja og stofnana sé reiðubúið til að benda á og afhjúpa ólöglega þætti í starfsemi – og þætti sem fela í sér veruleg frávik frá góðu siðferði eða ógna hagsmunum almennings og samfélagsins með skýrum og óumdeilanlegum hætti.
Samkvæmt minnisblaðinu vantar hér á landi lagalega vernd fyrir einstaklinga í atvinnulífinu sem koma á framfæri upplýsingum af þessu tagi þótt mikil umræða hafi verið um gagnsemi slíkrar lagasetningar á undanförnum árum. OECD hefur í tilmælum sínum til íslenskra stjórnvalda mælt sérstaklega með slíkum ákvæðum í tengslum við erlend mútubrot.
Lög af þessu tagi eru hins vegar líkleg til að styðja þá sem hafa gert árangurslausar tilraunir til að koma upplýsingum á framfæri á sínum starfsvettvangi við samstarfsfólk og yfirmenn. Vitneskjan um að samfélagið meti þá einstaklinga sem eru tilbúnir að láta borgaralegar skyldur við samfélagið ganga framar meðvirkni getur til lengri tíma einungis aukið gagnsæi í stjórnsýslu, atvinnulífi og viðskiptum og leitt til heilbrigðari starfshátta.
Starfshópurinn mælir með því að strax verði hafinn undirbúningur að nýju frumvarpi til heildarlaga um vernd uppljóstrara sem tekur tillit til þeirra umræðna sem áður hafa farið fram á þingi um slík lög og umsagna sem bárust í tengslum við fyrri frumvörp.