Fyrrverandi forstjóri alríkislögreglunnar FBI, James Comey, segir í nýrri bók sinni, A Higher Loyalty, að Donald J. Trump Bandaríkjaforseti hafi minnt sig á mafíuforingja, þegar hann átti samskipti við hann, skömmu eftir að hann varð forseti.
Þetta kemur fram í umfjöllun New York Times um bókina, en hún kemur formlega út á næstu dögum. Eitt stærsta málið sem Comey kom að sem rannsakandi og saksóknari var þegar hann saksótti Gambino-fjölskylduna sem leiddi til uppbrots á skipulagðri glæpastarfsemi hennar í New York.
Comey segir að Trump hafa um margt hagað sér með svipuðum hætti og mafíuforingjarnir, ekki síst þegar hann krafði Comey um hollustu við sig. „Hinn þögli hringur samþykkis. Stjórnandinn ræður öllu. Hollustan. Við á móti þeim, heimsýnin. Logið til um allt, stórt sem lítið, til að þjóna einhverri hollustu þar sem hreyfingin er mikilvægari en siðferði og sannleikur,“ segir meðal annars í umfjöllun New York Times.
Mr. President, the American people will hear my story very soon. And they can judge for themselves who is honorable and who is not.
— James Comey (@Comey) March 17, 2018
Þá fullyrðir Comey í bókinni að Trump sé siðlaus, stjórnist alfarið af sjálfsáliti sínu og hollustukröfum gagnvart sínum nánustu, og hafi enga raunverulega leiðtogahæfileika. Þá sé hann eineltismaður sem hiki ekki við að misnota aðstöðu sína.
Bókarinnar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu, en Comey var undir miklu álagi sem forystumaður alríkislögreglunnar, bæði vegna tölvupóstarannsóknarinnar sem beindist að Hillary Clinton og síðan vegna rannsóknarinnar á Trump og tengslum framboðs hans við Rússa.
Comey á langan feril að baki í lögreglunni og réttarvörslukerfinu í Bandaríkjunum, en Barack Obama skipaði hann forstjóra FBI í júní 2013, en hann tók þá við af Robert Mueller, sem nú er sérstakur saksóknari í rannsókn á tengslum Rússa við kosningabaráttuna í Bandaríkjunum 2016, og mögulegum tengslum við kosningaframboð Trumps.