Stefnt er að því að bjóða upp á kennslu í hindí við Háskóla Íslands háskólaárið 2018 til 2019 samkvæmt viljayfirlýsingu sem Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Rajiv K. Nagpal, sendiherra Indlands á Íslandi, undirrituðu í gær.
Þetta kemur fram í tilkynninginu frá Háskóla Íslands.
Í viljayfirlýsingin segir að Menningartengslaráð Indlands muni kosta stöðu sendikennara í hindí við Háskóla Íslands til tveggja ára í senn með möguleika á framlengingu um eitt ár. Háskólinn muni leggja til húsnæði og aðstöðu fyrir bæði sendikennarann og kennslu í tungumálinu og munu skólinn og Menningartengslaráðið í sameiningu velja kennarara til starfans. Kennarinn muni í samstarfi við Háskólann ákveða skipulag námsins og þau námskeið sem í boði verða. Viljayfirlýsinging gerir jafnframt ráð fyrir að kennarinn muni flytja einn opinn fyrirlestur á ári við Háskóla Íslands um málefni sem snerta Indland.
Samkvæmt yfirlýsingunni verður námið hýst í Mála- og menningardeild Hugvísindasviðs. Hindí bætist með þessu við flóru fjórtán erlendra tungumála sem þegar eru í boði við Háskóla Íslands.
Hindí tilheyrir flokki indóevrópskra tungumála eins og íslenska og er fyrst og fremst töluð í Indlandi sem er næstfjölmennasta ríki heims. Talið er að um 260 milljónir manna hafi hindí að móðurmáli sem þýðir að það er fjórða algengasta tungumál í heiminum á eftir mandarín-kínversku, spænsku og ensku.
„Undirritun viljayfirlýsingarinnar er merkur áfangi í uppbyggingu tungumálakennslu við Háskóla Íslands. Málið hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið og ég vil þakka sendiherra Indlands á Íslandi og indverskum stjórnvöldum fyrir mikinn velvilja í garð Háskóla Íslands. Kennsla og rannsóknir á sviði erlendra tungumála hafa verið í sókn við Háskólann og er þess skemmst að minnast að Veröld – hús Vigdísar var tekið í notkun á síðasta ári, en þar á m.a. aðsetur alþjóðleg tungumálamiðstöð. Það er mikið gleðiefni að hindí, sem er fjórða algengasta tungumál heims, skuli brátt bætast í fjölskrúðuga flóru erlendra tungumála við Háskóla Íslands,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við undirritun viljayfirlýsingarinnar í gær.