Íris Róbertsdóttir, fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að leiða nýjan framboðslista í Vestmannaeyjum í komandi sveitarstjórnarkosningum. Tilkynnt var um það fyrir helgi að stofnað hefði verið bæjarmálafélag og samhliða var skorað á Írisi að leiða það framboð.
Í stöðuuppfærslu á Facebook segir Íris að hún hafi ákveðið að verða við þeirri áskorun að gefa kosta á sér til að leiða nýja listann. „Ég er stolt og þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt með þessari áskorun. Þessa ákvörðun hef ég tilkynnt forsvarsmönnum hins nýja bæjarmálafélags - Fyrir Heimaey.“
Ég hef ákveðið að verða við þeirri áskorun að gefa kost á mér til að leiða nýjan framboðslista hér í Vestmannaeyjum í...
Posted by Íris Róbertsdóttir on Sunday, April 15, 2018
Ákvörðun Írisar vekur athygli þar sem hún er flokksbundin Sjálfstæðiskona og hefur setið í miðstjórn flokksins, en mikil ólga hefur verið á milli hópa innan flokksins í Vestmannaeyjum. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins um málið í febrúar eru tildrög þeirra deilna þær að óánægja var um að ekki skyldi haldið prófkjör heldur raðað á lista Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum. Tillaga um prófkjör var felld í fulltrúaráði flokksins með 28 atkvæðum gegn 26 í janúar. Í frétt Morgunblaðsins kom fram að forysta Sjálfstæðisflokksins hefði verið upplýst um deilurnar.
Elliði tekur kröfu um valddreifinu alvarlega
Í síðustu viku var tilkynnt að Elliði Vignisson, bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðismanna síðastliðinn 12 ár, verði í fimmta sæti á lista flokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum, og mun þar af leiðandi ekki leiða listann.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir mun skipaa fyrsta sæti listans, en þetta er í fyrsta skipti í 20 ár sem kona skipar fyrsta sæti á lista Sjálfstæðismanna í Eyjum.