Fimm þúsund umsóknir bíða afgreiðslu hjá ríkisskattstjóra um úrræðið „Fyrsta fasteign“. Tvær ástæður eru aðallega gefnar fyrir þessum fjölda en samkvæmt svari ríkisskattstjóra við fyrirspurn Kjarnans tók mun lengri tíma að útbúa tölvukerfi þeirra aðila sem að málinu koma og skapaði það þá töf sem orðið hefur.
Enn fremur var afgreiðsla umsóknanna tímafrekari en búist var við og ekki voru nægilega margir starfsmenn að sinna verkefninu. Samkvæmt ríkisskattstjóra var tekin sú ákvörðun fyrr á árinu að auka við mannafla til að anna eftirspurn.
„Fyrsta fasteign“ stendur þeim til boða sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Samkvæmt úrræðinu geta þeir nýtt séreignarlífeyrissparnað til að safna fyrir innborgun á fyrstu íbúðarkaup eða greitt inn á höfuðstól húsnæðisláns. Alls er heimilt að ráðstafa að hámarki 500 þúsund krónum á ári í mest tíu ár með ofangreindum hætti samkvæmt skilmálum „Fyrstu fasteignar“.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hafði stjórn á undirbúningi verkefnisins og skipaði tvo starfshópa til að undirbúa framkvæmdina meðal annars að hlutast til um að sett væri upp viðeigandi tölvukerfi og greina með hvaða hætti samstarf yrði við lífeyrissjóði, fjármálafyrirtæki, þjóðskrá og aðra aðila sem afhenda þurfa upplýsingar til að unnt verði að afgreiða umsóknir. Ríkisskattstjóri hefur það hlutverk að taka við umsóknum og afgreiða þær í samræmi við gildandi lagaákvæði.
Afgreiðsla hverrar umsóknar tekur langan tíma
Í svari ríkisskattstjóra kemur fram að tafir á smíði tölvukerfisins hafi haft í för með sér að mun tímafrekara var að afla nauðsynlegra upplýsinga til að unnt væri að ákvarða hvort umsókn uppfyllti þau lagalegu skilyrði sem lög setja við ákvörðun á því hvort unnt væri að fallast á umsókn. Eru það til að mynda upplýsingar um hvort um fyrstu kaup umsækjanda er að ræða, hvort lán sem óskað er greiðslu inn á uppfylli skilyrði laganna, hvort umsækjandi uppfylli skilyrði laganna að öðru leyti o.s.frv. Afgreiðsla hverrar umsóknar tók með öðrum orðum langan tíma, samkvæmt ríkisskattstjóra.
Segir jafnframt í svarinu að sérstök eining hafi verið sett upp sem einnig hafði með höndum afgreiðslu á umsóknum um séreignarsparnað. Í fyrstu eftir að lögin tóku gildi hafi mikill fjöldi fyrirspurna borist og hafi starfsmenn ríkisskattstjóra verið bundnir í þeim þætti. Þá hafi á síðustu dögum ársins 2017 komið mikill fjöldi nýrra umsókna vegna fyrstu kaupa en einnig vegna eldra séreignarsparnaðarúrræðisins sem hófst árið 2014.
Starfsmenn færðir um set
„Á sama tíma jókst þjónusta við viðskiptavini mikið bæði í síma og tölvupósti sem og fjölgaði heimsóknum á starfsstöðvar embættisins vegna þessara verkefna. Allt gerði þetta að verkum að mikið hægðist á afgreiðsluhraðanum og fjöldi óafgreiddra umsókna jókst. Í framhaldi af þessu var tekin ákvörðun á fyrri hluta ársins 2018 um að auka við mannafla sem sinnti þessu verkefni. Þá er unnið að því að færa starfsmenn úr öðrum einingum í þetta verkefni en engin fjárveiting fylgdi þessu verkefni,“ segir í svarinu.
Ríkisskattstjóri segir að nú sé staðan sú að nauðsynleg tölvukerfi eru loksins komin í fullan rekstur. Með auknum mannafla og að upplýsingar berast nú greiðar en áður, stefni í að á næstu vikum verði unnt að ná afgreiðslutíma umsókna um fyrstu íbúð í viðunandi horf með afgreiðslu þeirra umsókna sem þegar hafa borist.
Kjarninn fjallaði um úrræðið „Fyrsta fasteign“ en á annað hundrað manns hafa nýtt sér það frá því að það kom til framkvæmda um mitt ár í fyrra. Sá hópur hefur ráðstafað um 55 milljónum króna til íbúðarkaupa á tímabilinu.
Þegar úrræðið var kynnt í Hörpu um miðjan ágúst 2016 af þáverandi ráðamönnum þjóðarinnar kom fram í glærukynningu að um 50 milljarðar króna myndu rata í inngreiðslur á húsnæðislánum vegna „Fyrstu fasteignar“ á tíu árum eftir að úrræðið tæki gildi. Þegar níu mánuðir af tímabilinu eru liðnir þá hefur 0,1 prósent af þeirri upphæð sem ráðamenn sögðu að myndu fara í að greiða niður húsnæðislán undir hatti úrræðisins farið í það.