Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík og oddviti Samfylkingarinnar í komandi borgarstjórnarkosningum, segir að það sé mjög lítill munur á málflutningi Eyþóri Arnalds, oddvita Sjálfstæðismanna, og Vigdísi Hauksdóttur, oddvita Miðflokksins, þegar kemur að helstu borgarmálum. Hann sér ekki fyrir sér að Samfylkingin geti unnið með þeim flokkum né öðrum sem leggjast gegn gildandi skipulagi í Reykjavík.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í sjónvarpsþætti Kjarnans á Hringbraut sem frumsýndur er klukkan 21 í kvöld. Hægt er að sjá stiklu úr þætti kvöldsins í spilaranum hér að ofan.
Dagur segir að það sé óljóst eftir því hvaða frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins tali hver stefna flokksins sé nákvæmlega í samgöngumálum, og þar með í afstöðu gagnvart Borgarlínu. „En síðast í gær í borgarstjórn þegar verið var að greiða atkvæði um breytingar á svæðisskipulagi út af Borgarlínu þá greiddi borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins atkvæði gegn þeirri breytingu. Reyndar vantaði Halldór Halldórsson og Áslaugu Friðriksdóttur, sem hefur verið ýtt svolítið til hliðar núna í aðdraganda kosninga innan flokksins. En þar kristallaðist bein andstaða. Eins og hjá oddvita sjálfstæðismanna hingað til. Vigdís Hauksdóttir og Eyþór Arnalds tala býsna líkt um þessi mál, eins og í fleiri málum. Það er mjög lítill munur á Eyþóri Arnalds og Vigdísi Hauksdóttur, sýnist mér.“
Í þættinum verður einnig farið yfir hverjar kosningaáherslur Samfylkingarinnar verða, og Dagur er spurður út í gagnrýni á frammistöðu meirihlutans í t.d. rekstri borgarinnar og dagvistunarmálum.
Í næstu viku verður Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna, gestur þáttarins.