Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur og oddviti Samfylkingarinnar, gefur lítil fyrir gagnrýni á fjármál borgarinnar sem sett hefur verið fram af pólitískum andstæðingum hans.
Hann segir að núverandi meirihluti hafi náð viðsnúningi í rekstri borgarinnar eftir að hann hafi þurft að taka töluvert á út af launahækkunum, ekki síst inn í skólakerfinu og í grunnþjónustu borgarinnar. „Við erum að fara að kynna ársreikning í næstu viku. Hann sýnir áframhaldandi styrka stjórn og sterka stöðu. En það eru ekki nýjar fréttir fyrir þá sem fylgst hafa með fréttum um fjármál borgarinnar.
Við náðum þessa mikla viðsnúningi með rekstri Orkuveitunnar og búum að því ennþá. Það sama gildir um önnur fyrirtæki borgarinnar þannig að ég er stoltur þegar ég horfi yfir reikninganna og horfi yfir árangurinn og samstarfið sem við höfum átt í meirihlutanum. Við fagfólkið hjá borginni og samstarfsaðilanna úti í fyrirtækjum borgarinnar.“
Þetta kemur fram í nýjasta þætti Kjarnans á Hringbraut sem var frumsýndir í gærkvöldi. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum í spilaranum hér að ofan.
Reiknað með milljarða afgangi í ár
A-hluti borgarinnar, sem er sú starfsemi hennar sem er að hluta eða öllu leyti fjármögnuð með skatttekjum, hefur verið í járnum á undanförnum árum. Árin 2014 og 2015 var hún til að mynda neikvæð upp á 16,4 milljarða króna. Það þýðir að borginni vantaði þá upphæð til að geta staðið undir rekstrarkostnaði A-hlutans. Vert er að taka fram að stærsta ástæða þess að hallinn var jafn hár og raun ber vitni var sú að breytingar á lífeyrisskuldbindingum á árinu 2015 gerði það að verkum að bókfærð voru gjöld sem voru rúmlega tíu milljörðum krónum hærri en þau voru árið eftir. Þrátt fyrir að lífeyrisskuldbindingarnar væru teknar út fyrir sviga þá var borgin samt sem áður að tapa milljörðum króna á ári.
Stór breyta í þeirri afkomu er áætluð tekjuaukning vegna fasteignagjalda. Þau voru í heild 15,6 milljarðar króna árið 2016 en áætlað var að þau myndu skila 18 milljörðum króna í borgarsjóð í fyrra. Það yrði tekjuaukning á þeim lið upp á 2,4 milljarða króna á milli ára.