Fríblaðið Mannlíf kom inn um bréfalúgur íbúa höfuðborgarsvæðisins í morgun. Blaðinu er dreift frítt í 80 þúsund eintökum og kemur nú út vikulega. Um er að ræða samstarfsverkefni útgáfufélagsins Birtings og Kjarnans miðla.
Ritstjórn Kjarnans sér um vinnslu frétta, fréttaskýringa, úttekta, skoðanagreina og fréttatengdra viðtala á meðan að ritstjórnir Gestgjafans, Hús og híbýla og Vikunnar vinna áhugavert og skemmtilegt efni inn í aftari hluta blaðsins.
Í Mannlífi er lagt mikið upp úr gæðum efnis úr mörgum áttum og eru efnistök því afar fjölbreytt. Í blaðinu er að finna lífstílstengt efni um heimili, hönnun, ferðalög, mat og drykk í bland við vandaðar fréttaskýringar og viðtöl við áhugavert fólk.
Á meðal efnistaka í blaði dagsins er viðtal við Stefaníu Guðrúnu Halldórsdóttur, nýráðinn framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun. Hún bjó í Sjanghæ í þrjú ár þar sem hún gegndi stöðu þróunarstjóra CCP. Hún segir að stundum hafi gengið á ýmsu í samskiptum við Kínverja en Íslendingar geti þó lært mikið af þeim og öðrum Asíuþjóðum.
Einnig má finna í blaðinu fréttaskýringu um áhrif Facebook á íslenskar kosningar, leiðara eftir Þórð Snæ Júlíusson og margt fleira. Þá biðlar Eiríkur Ragnarsson til Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar að nota ekki kolefnisgjaldið til að borga bensínreikninginn hans Ásmundar Friðrikssonar.