Á meðal þeirra eigna sem íslenskra ríkið ráðstafaði til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) í byrjun árs var 10,44 prósent hlutur í Eyri Invest hf. Það félag á meðal annars 25,88 prósent hlut í Marel og samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2017 var eigið fé Eyris Invest 368,6 milljónir evra, eða um 45,4 milljarðar króna, um síðustu áramót. Virði Marel hefur hækkað um 20 prósent frá áramótum.
Aðrar eignir í hlutafélögum sem ráðstafað var til LSR í samkomulaginu voru 19,2 prósent hlutur í Nýja Norðurturninum ehf., félagi utan um 15. hæða turn við Smáralind sem hýsir meðal annars höfuðstöðvar Íslandsbanka, 4,7 prósent hlutur í Auði 1 fagfjárfestasjóði og 1,9 prósent hlutur í Internet á Íslandi hf., félagi sem sér um skráningu léna undir landsléninu .is.
Auk þess fékk LSR framseldar lánaeignir á átta aðila. Ekki hefur verið upplýst um hverjir lántakendurnir eru.
Skuld ríkisins minnkar ef eignirnar hækka í verði
Alls var virði þeirra eigna sem framseldar voru frá Lindarhvoli til LSR metið á 19 milljarða króna. Í raun skiptir matsvirðið samt sem áður ekki sköpum þar sem eignirnar fara upp í skuld ríkisins við B-deild LSR, en ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs voru 611 milljarðar króna í lok síðasta árs. Til að sameinaður sjóður geti staðið við þær þyrftu árleg framlög ríkissjóðs til sjóðsins að vera sjö milljarðar króna á ári að jafnaði næstu 30 árin í stað þeirra fimm milljarða króna sem nú er ráðstafað til þeirra á ári.Líkt og stendur í svari Bjarna: „Standi umræddar eignir ekki undir því verðmati sem sett er á þær nú hefur það að óbreyttu áhrif til hækkunar á ófjármögnuðum skuldbindingum ríkissjóðs í framtíðinni. Ef umræddar eignir skila að sama skapi meiri verðmætum í framtíðinni en núverandi mat segir til um hefur það að óbreyttu jákvæð áhrif á skuldbindingu ríkissjóðs til lækkunar í framtíðinni.[...]Komi í ljós við endanlega lúkningu eignasafnsins að verðmæti þeirra reynist að lokum hærra eða lægra en sem nemur fjárhæðinni verður fjárhæðin aðlöguð til samræmis og þannig mun skuldbinding ríkissjóðs gagnvart LSR lækka eða hækka sem því nemur.“
Ríkisendurskoðun fékk afrit
Ólafur vildi samt sem áður fá að vita hvað aðgerðum hefði verið beitt við að verðmeta eignirnar og hverjir hefðu framkvæmt verðmatið. Í svarinu kemur fram að verðmatið byggi á mati LSR og Lindarhvols. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi ekki kallað til utanaðkomandi aðila til þess að meta eignirnar en veit ekki hvort LSR gerði slíkt.
Ríkisendurskoðun fékk afrit af verðmati eignanna og samningnum við LSR. Í svarinu segir að unnið sé að því að ljúka uppgjöri ríkissjóðs fyrir 2017 og endurskoðun ársreiknings og gera megi ráð fyrir að þeirri vinnu verði lokið á vormánuðum eða í byrjun sumars. „Fulltrúar Ríkisendurskoðunar sem koma að endurskoðun ársreiknings B-deildar LSR hafa fengið kynningu á verðmati eignanna sem notað var við skráningu þeirra í verðbréfakerfi sjóðsins.“