Velferðarráðuneytið hefur falið Landspítala og öðrum heilbrigðisstofnunum að sinna þjónustu við sængurkonur og börn þeirra sem verið hefur í höndum ljósmæðra með samning við Sjúkratryggingar Íslands. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á vef Landspítalans.
Þar segir að spítalinn telji að þjónustan hafi gengið vel eins og hún var úr garði gerð en að Landspítali muni sinna verkefninu eins og unnt er þar til deilan leysist. „Þetta mun skapa mikinn vanda sem bætist við þá alvarlegu stöðu sem blasir við vegna kjaradeilu ljósmæðra við ríkisvaldið. Landspítali er ekki aðili að þessum samningum og hvetur til lausnar málsins hið fyrsta.“
Fjölmargar ljósmæður leggja niður störf
Kjarninn greindi frá því í morgun að í það minnsta 60 ljósmæður ætluðu leggja niður störf í dag og að þær ætli ekki að taka til starfa á nýjan leik, fyrr en samningur við Sjúkratryggingar Íslands um greiðslur til þeirra hafa verið undirritaðar og staðfestar.
Nú er hins vegar ljóst að allar 95 ljósmæður sem sinna heimaþjónustu munu leggja niður störf.
Þá hefur Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagt að kröfurnar sem ljósmæður hafa komið fram með, séu óaðgengilegar þar sem þær myndu hafa slæm áhrif á vinnumarkaðinn í heild sinni.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, sagði í Morgunblaðinu í dag, að aðgerðir ljósmæðra í heimaþjónustu komi henni á óvart.
Aðspurð um ástæðu þess, að tilbúinn samningur Sjúkratrygginga við ljósmæður í heimaþjónustu hafi legið svo lengi óundirritaður á hennar borði, sagði Svandís að bera þurfi tiltekna þætti samningsins undir Landspítalann og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, áður en hægt sé að ganga endanlega frá honum.
Munu dvelja lengur á spítalanum
Heimaþjónustan sem um ræðir er í boði fyrir konur sem hafa nýverið átt barn eða eru að fara að eignast slíkt. Misjafnt er hversu fljótt konur fara heim af fæðingardeildinni eftir fæðingu en þá tekur heimaþjónustan í flestum tilfellum við þjónustuhlutverki við mæðurnar.
Eftirlit hennar felst meðal annars í því að fylgjast með ástandi móður og barns og hvernig til tekst með brjóstagjöf. Mismunandi er eftir konum og börnum hversu mikil þjónustan er. Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala, segir að konur muni dvelja lengur á spítalanum eftir fæðingu ef heimaþjónustan sé ekki lengur í boði. Síðan verði gert ráð fyrir því að heilsugæslustöðvar taki við eftirlits- og þjónustuhlutverkinu.