Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að vonast sé til þess á næstunni að tilskilin leyfi fáist til rekstrar jáeindaskanna sem Íslensk erfðagreining gaf íslensku þjóðinni í ágúst 2015. Nú standi yfir úttektir vegna þeirra leyfa. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skriflegu svari hennar við fyrirspurn Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, þingmanns Miðflokksins, um framkvæmdir við Landsspítalann sem birt var í gær.
Eftir að hafa gefið jáeindaskannann lét Íslensk erfðagreining hanna byggingu við Landsspítalann við Hringbraut til að hýsa hann, sem var hluti af gjöfinni. Í svari heilbrigðisráðherra segir að kostnaðaráætlun fyrir bygginguna hafi upphaflega verið 266 milljónir króna auk kostnaðar við tengingu við núverandi húsnæði, sem metin var á 35 milljónir króna. Samanlagður kostnaður var því metinn á 301 milljónir króna.
Endanlegur kostnaður 355 milljónir
Endanlegur kostnaður verður um 18 prósent hærri, eða 355 milljónir króna. Þar af greiddi Landsspítalinn hluta af kostnaði við húsið og tengingar við byggingar Landsspítalans. Hlutdeild hans í kostnaðinum er 154 milljónir króna.
Jáeindaskanninn fór inn í sérútbúna húsið í ársbyrjun 2017. Farið var að nota CT-skannann (hluti af PET/CT-skanna) haustið 2017 og hefur hann verið í reglulegri notkun, og þá einkum sem varatæki og fyrir geislaplön.
Núna standa yfir úttektir á framleiðslueiningunni og vonir standa til að tilskilin leyfi til rekstrar jáeindaskannans fáist á næstunni.“
Tæki til að meta æxli
Jáeindaskanni er íslenska heitið á myndgreiningartæki sem kallast PET/CT á fræðimáli og er einkum notað til að greina og meta æxli í mannslíkamanum. Þessi tækni sá dagsins ljós á seinustu áratugum 20. aldar og olli miklum framförum í greiningu og meðhöndlun á krabbameinsæxlum en búnaðinn má einnig nota við greiningar á öðrum sjúkdómum.
Jáeindaskanninn varð til við samruna tveggja áður þekktra greiningartækja; annars vegar tölvusneiðmyndatækis sem er röntgentæki sem gerir okkur kleift að sjá og mynda innri líffæri sjúklings og hins vegar myndgreiningartækis sem greinir geislavirkar jáeindir frá efni sem sprautað er í sjúkling og safnast fyrir til dæmis í krabbameinsfrumum. Heiti tækisins er dregið af jáeindunum.