„Mörg fremstu fyrirtæki landsins eru á landsbyggðinni, t.a.m. Samherji, HB Grandi, og Kaupfélag Skagfirðinga. Landsbyggðin er í raun íslenski fjársjóðurinn horft til framtíðar.“
Þetta segir Albert Þór Jónsson, viðskiptafræðingur, í grein í Morgunblaðinu í dag, en hann telur að mikil tækifæri felist í því að ýta undir nýsköpun í haftengdri starfsemi.
Tækifærin liggi ekki síst víða á landsbyggðinni þar sem sterk og vel fjármögnuð fyrirtæki eru með rætur. Stjórnvöld þurfi hins vegar að sinna þessum málum og móta sýn til langrar framtíðar. „Þess vegna er mikilvægt að stjórnvöld móti framtíðarsýn fyrir landsbyggðina í þeim málaflokkum þar sem verðmæti auðlinda landsins á eftir að aukast verulega. Virðing og umgengni við íslenska fjársjóðinn þarf að aukast og öll umræða að verða faglegri. Stefnumörkun og framtíðarsýn þurfa að taka mið af langtímasjónarmiðum. Framsækin stefnumótun í samgöngumálum og menntamálum er eitt af mikilvægustu verkefnum á næstu árum en þannig verður landsbyggðin álitlegur kostur fyrir einstaklinga og fyrirtæki þar sem blómlegt atvinnulíf getur þrifist,“ segir Albert Þór í grein sinni.
Hann segir enn fremur að mikil tækifæri liggi í því að efla innviði, meðal annars í höfnum, um allt land, til þess að styðja betur við strandsiglingar, útflutning landbúnaðarafurða og nýsköpun. Ný fyrirtæki hafi tækifæri til þess að vaxa og dafna í slíkum aðstæðum.