Viðreisn vill hækka framlög til dagforeldra um 50 milljónir á hverju ári og lækka fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði úr 1,65 prósent niður í 1,6 prósent í tveimur skrefum á síðari hluta kjörtímabilsins. Þetta kom fram á fundi Viðreisnar þar sem stefnumál flokksins í Reykjavík fyrir komandi kosningar voru kynnt.
Með lækkun fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði verður Reykjavík með þriðju lægstu gjöldin á höfuðborgarsvæðinu og jafn há gjöld og Kópavogur. Þetta mun kosta borgarsjóð 300 milljónir.
Það sem meðal annars má finna í stefnu flokksins er að þau vilja fjölga ungbarnadeildum og hafa sex leikskóla opna yfir sumartímann. Viðreisn vill hækka laun kennara um allt að 100 þúsund krónur og ætlar að veita 50 milljónum árlega í skólaþróun.
Þau vilja bæta almenningssamgöngur og styðja uppbyggingu borgarlínu. Á háannatíma vilja þau að strætó að gangi á sjö og hálfrar mínútu fresti á stofnleiðum en einnig vilja þau fjölga hjólastígum. Viðreisn vill finna nýja staðsetningu fyrir innanlandsflug nálægt Reykjavík en flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýri þar til sú staðsetning verður fundin. Þau vilja stækka gjaldsvæði bílastæða og lengja gjaldskyldu tímann.
Flokkurinn vill einnig selja malbikunar Höfða og greiða upp skuldir tengdar því. Viðreisn gerir ráð fyrir tekjum af gistináttagjaldi og aukna þjónustu ætla þau að fjármagna með uppfærslu á gjaldskrám.
Borgarfulltrúar taka vaktir í símaveri
Viðreisn vill að borgarfulltrúar taki vaktir í símaveri og stefna á að stjórnsýsla borgarinnar verði rafræn að fullu. Öllum umsóknum og fylgiskjölum um byggingarleyfi á að vera hægt að skila rafrænt og á svar að berast innan 48 klukkustunda um hvort umsóknin sé gild. Þau vilja stytta biðtíma og auka gegnsæi í umsóknarferli, ekki aðeins í atvinnugeiranum heldur fyrir alla þjónustu.
Stefna flokksins er að veita fleiri styrki til atvinnuþróunar og tók Pawel Bartoszek dæmi um að hægt verði að sækja um styrk til að gera upp atvinnuhúsnæði sem hefur staðið autt lengi. Viðreisn hyggist veita 30 milljónum króna árlega í samkeppnisstyrki í atvinnuþróun yfir þriggja ára tímabil, 2019-2021.
Þá vilja þau enn fremur fjölga félagslegum leiguíbúðum í Reykjavík um 350 og sértækum íbúðum fyrir fatlaða um hundrað á kjörtímabilinu.