Ritun sögu ÁTVR hefur tekið 13 ár en sagan mun koma út í næstu viku. Kjarninn óskaði eftir upplýsingum hversu mikið verkefnið hefur kostað en þær hafa ekki fengist.
Í nýútkominni ársskýrslu ÁTVR kemur fram að saga ÁTVR muni koma út á árinu. Ákvörðunin var tekin í stjórnartíð Höskuldar Jónssonar, en hann var forstjóri ÁTVR frá 1986 til 2005. Þá tók Ívar Arndal, núverandi forstjóri við. Í ársskýrslu ÁTVR frá árinu 2005 kemur fram að stefnt var á að gefa hana út árið 2007 á 85 ára afmæli ÁTVR. Útgáfa sögunnar hefur því tafist umtalsvert.
Í upphaflegri kostnaðaráætlun frá árinu 2006 var gert ráð fyrir að kostnaður við ritun og útgáfu sögunnar væri 14,4 milljónir. Verkefnið hefur tafist í yfir 10 ár og árið 2016 var áætlaður kostnaður til verkefnisins 22 milljónir króna.
Hildigunnur Ólafsdóttir, afbrotafræðingur og sjálfstætt starfandi fræðimaður við Reykjavíkur akademíuna, Sumarliði R. Ólafsson, lektor í hagnýtri menningarmiðlum og Sverrir Jakobsson, prófessor í miðaldasögu komu að ritun sögunnar. Aðstoðarforstjóri ÁTVR, Sigrún Ósk Sigurðardóttir, gerir ráð fyrir að sagan verði prentuð í litlu upplagi en einnig birt á heimasíðu ÁTVR.