Átján starfsmönnum Novomatic Lottery Solutions (Iceland) hf. var sagt upp í vikunni, en um var að ræða starfsmenn í hugbúnaðargerð.
Fyrirtækið hannar hugbúnað fyrir ríkisrekin lottó, en Novomatic, sem er frá Austurríki, keypti íslenska fyrirtækið Betware árið 2013, og byggir starfsstöð fyrirtækisins hér á landi á þeim grunni.
Fyrirtækið er með starfsstöð í Holtasmára í Kópavogi.
Eftir uppsagnirnar munu 94 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu á Íslandi, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Ástæða uppsagnanna er sögð sú að stór kúnni hefði slitið samningi sínum við Novomatic LS. Framtíðartekjur yrðu þar af leiðandi lægri en vonir stóðu til og því var fólki sagt upp.
Sjö starfsmönnum hafi verið sagt upp á Spáni og sautján í Serbíu. Utan Íslands starfa um það bil 240 manns á öðrum starfsstöðvum fyrirtækisins.