Ríkisstjórnin mun leggja til 10 milljónir króna vegna endurbóta á Norræna húsinu í tilefni af 50 ára afmæli hússins. Þetta var ákveðið á ríkisstjórnarfundi þann 20. apríl síðastliðinn. Þetta kemur fram í frétt forsætisráðuneytisins.
Kjarninn hefur undir höndum teikningar af fyrirhuguðum framkvæmdum en til stendur að reisa lágreistan hvítan múrvegg sem snúa mun að Sæmundargötu. Áætlað er að veggurinn verði tilbúinn fyrir afmælisdag hússins sem er 24. ágúst næstkomandi.
Í frétt ráðuneytisins segir að Norræna húsið hafi verið opnað 1968 og hafi það verið lifandi miðstöð norrænnar samvinnu og menningar á Íslandi allar götu síðan. Í tilefni afmælisins hafi verið ráðist í margvíslegar endurbætur á húsinu og umhverfi þess og hafi Norræna ráðherranefndin, Norræna húsið sjálft og Reykjavíkurborg staðið straum af kostnaði vegna þess.
Enn fremur verða upprunalegu ljósastaurarnir endurgerðir, náttúrulegt umhverfi endurheimt, merkingar bættar og göngustígur að húsinu lagfærður.
Umrædd tillaga og útfærslur við Norræna húsið og þær myndir sem fylgja fréttinni eru unnin af Tvíhof arkitektum.