Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að mál Braga Guðbrandssonar, fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu, hafi ekki borið á góma á fundi ríkisstjórnarinnar þann 23. febrúar síðastliðinn þegar samþykkt var að hann yrði frambjóðandi Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.
Í umfjöllun Stundarinnar í morgun kom fram að Bragi hafi beitt sér fyrir því að maður fengi að umgangast dætur sínar sem hann var grunaður um kynferðisbrot gegn.
Katrín segir að aftur á móti hafi verið greint á fundinum frá niðurstöðu velferðarráðuneytisins um að Bragi væri talinn hæfur og að hann hafi ekki brotið af sér í starfi.
Fara yfir málin þegar Ásmundur kemur að utan
Ásmundur Einar er erlendis en hann hefur verið boðaður á opinn fund í velferðarnefnd næstkomandi mánudag. Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis og þingmaður Pírata, félags- og jafnréttismálaráðherra, greindi frá þessu í dag.
Katrín segist hafa heyrt í Ásmundi Einari í dag og að þau muni fara yfir málin þegar hann kemur til baka.
Aðspurð um hvort að þau atriði sem nú liggja fyrir eftir umfjöllun Stundarinnar, um afskipti Braga að máli mannsins sem grunaður var um að brjóta gegn dætrum sínum, breyti einhverju þegar kemur að stuðningi Katrínar sjálfrar og ríkisstjónarinnar við framboð Braga hjá Sameinuðu þjóðunum ítrekar hún að hún muni ræða málið við Ásmund þegar hann kemur að utan.
Frestur rennur út á mánudaginn
Kosið er í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna á tveggja ára fresti, níu fulltrúar í hvert sinn. Hver fulltrúi er kosinn til fjögurra ára í senn. Næsta val fulltrúa í nefndina fer fram þann 29. júní næstkomandi en Utanríkisráðuneytið mun stýra kosningabaráttu vegna framboðs fulltrúa Íslands með milligöngu fastanefndarinnar í New York. Frestur til framboðs rennur út næstkomandi mánudag.
Í frétt velferðarráðuneytisins frá 23. febrúar kemur fram að Norðurlöndin telji mikilvægt að eiga rödd á vettvangi Barnaréttarnefndarinnar og síðastliðin átta ár hafi Noregur átt þar fulltrúa; Kirsten Sandberg, lögfræðing og sérfræðing í réttindum barna. Hún muni ekki gefa kost á sér áfram og hingað til hafi ekkert Norðurlandanna skilað inn framboði.