Það væri mjög gott ef þau myndu veita meiri fjármunum í þetta, en aðalmálið er hvað gerum við við peninganna,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks í Reykjavík, þegar hann er spurður hvort að honum finnist að nágrannasveitafélög höfuðborgarinnar axli meiri ábyrgð á félagslegri þjónustu við íbúa höfuðborgarsvæðisins. Eyþór var gestur síðasta sjónvarpsþáttar Kjarnans. Hægt er að sjá stiklu úr þætti vikunnar í spilaranum hér að ofan.
Eyþór segir að hlutverk félagslega kerfisins eigi að vera númer eitt að hjálpa fólki aftur út í þjóðfélagið. „Það er ekki endanlegt markmið að fólk sé fast inni í félagslega kerfinu. Mér finnst stjórnvöld í Reykjavík hafa staðið sig ágætlega í því að setja fjármuni í þennan málaflokk en það hefur ekki tekist að sinna fólkinu þannig að það komist aftur út. Það er eitt af því sem ég vil leggja áherslu á. Að fólk fái aftur tækifæri til að komast út úr þessu. Ekki að það séu fátækragildur sem geti orðið og að fólk sé fast inni í félagslegu húsnæði eða öðru. Í sumum tilvikum viljum við hjálpa fólki að eignast húsnæðið sem það býr í. Ég hef talað við bæði öryrkja og þá sem búa í félagslegum íbúðum, og heyri að þeir búa við mikið óöryggi frá Reykjavíkurborg. Þó að mikið fjármagn fari inn í þetta þá er óöryggi til dæmis varðandi leigusamninganna. Þeir hækka fyrirvarðarlítið og það er ekkert öryggi í þessum leigusamningum.
Reykjavík ber upp velferðarkerfi höfuðborgarsvæðisins
Um síðustu áramót átti Reykjavíkurborg 2.445 félagslegar íbúðir. Þeim var fjölgað um á annað hundrað í fyrra. Til samanburðar áttu þau nágrannasveitafélög höfuðborgarinnar sem koma þar næst, Kópavogur (436 félagslegar íbúðir) og Hafnarfjörður (245 félagslegar íbúðir) samtals 681 félagslega íbúð í lok árs 2016. Í Garðabæ voru á þeim tíma 35 slíkar, 30 í Mosfellsbæ og 16 á Seltjarnarnesi.
Í Reykjavík voru 19,7 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa í lok árs 2016 á meðan að þær voru 2,3 á hverja þúsund íbúa í Garðabæ, 3,6 á hverja þúsund íbúa Seltjarnarness og 4,5 á hverja þúsund íbúa í Mosfellsbæ. Þessar tölur komu fram í könnun sem varasjóður húsnæðismála lét gera á stöðunni. Niðurstöður hennar voru birtar í ágúst í fyrra. Þar sagði einnig að ef framboð nágrannasveitarfélaganna fimm ætti að vera sambærilegt og það er í Reykjavík, miðað við stöðuna í lok árs 2016, þyrfti að fjölga félagslegum leiguíbúðum þeirra um 1.080.
Fjöldi þeirra sem þáði félagslega aðstoð í Reykjavík hefur dregist umtalsvert saman á undanförnum árum. Árið 2013 þáðu 4.274 fjölskyldur slíka en árið 2016 var sá fjöldi 3.170. Þá voru þrjár af hverjum fjórum fjölskyldum sem þáðu fjárhagsaðstoð á höfuðborgarsvæðinu búsettar í Reykjavík. Íbúar Reykjavíkur eru 57 prósent af íbúum höfuðborgarsvæðisins.
Í fylgigögnum með nýbirtum ársreikningi fyrir árið 2017 kemur fram að fjárhagsaðstoðar og húsnæðisstuðnings Reykjavíkurborgar hafi áfram lækkað á því ári.
Hægt er að horfa á nýjasta þátt Kjarnans í heild sinni hér að neðan: