Bláa Lónið hf. vísar fullyrðingum forráðamanna Gray Line um samkeppnishindranir af hálfu Bláa Lónsins hf. alfarið á bug. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bláa lóninu.
Gray Line á Íslandi tilkynnti í gær að fyrirtækið myndi segja upp 15 starfsmönnum fyrir næstu mánaðamót vegna samdráttar í verkefnum, þar sem ákveðið hafi verið að hætta með áætlunarferðir í Bláa Lónið.
Í tilkynningu Bláa Lónsins hf. segir að Gray Line hafi í krafti stærðar sinnar notið þeirrar sérstöðu undanfarin ár, umfram flesta aðra samkeppnisaðila þeirra á ferðaþjónustumarkaðnum, að hafa fengið að selja aðgang að Bláa Lóninu í gegnum rafræna beinlínutengingu við kerfi Bláa Lónsins hf. Fjölmargir ferðaþjónustuaðilar hafi, þrátt fyrir sérstöðu Gray Line að þessu leyti, stundað hópferðaakstur til og frá Bláa Lóninu bæði með og án þess að selja aðgang að Bláa Lóninu samhliða. Með því að fella niður rafræna beinlínutengingu Gray Line við kerfi Bláa Lónsins hf. sé þannig þvert á móti verið að jafna stöðu Gray Line og annarra aðila á ferðaþjónustumarkaði sem eru í samkeppni við Gray Line.
„Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Bláa Lónið hf. sjálft hafið áætlunarferðir í Bláa Lónið. Ákvörðun þar að lútandi snýr fyrst og fremst að því að bjóða víðtækari þjónustu, tryggja samræmi og bæta upplifun gesta, en er jafnframt ráðstöfun sem ætlað er að jafna flæði gesta og auka samþættingu og hagræðingu í rekstri Bláa Lónsins hf.
Þær breytingar sem hér um ræðir hafa legið fyrir í langan tíma og stjórnendum Gray Line að fullu kunnar.
Hér eftir sem hingað til er öllum ferðaþjónustuaðilum frjálst að stunda akstur til og frá Bláa Lóninu og mun Bláa Lónið hf. áfram kappkosta að eiga gott samstarf við fjölmarga samstarfsaðila sína í íslenskri ferðaþjónustu“ segir í tilkynningunni.