Strætó hefur bætt þeim eiginleika við Strætó-appið, sem um 96.500 manns hafa sótt, að hægt er að hlusta á hlaðvörp í því. Á meðal þeirra þeirra hlaðvarpa sem eru aðgengileg í nýjustu uppfærslu appsins eru öll hlaðvörp Kjarnans. Auk þess er þar hægt að hlusta á hlaðvörp frá Alvarpinu, Fótbolta.net, Fílalag og Í frjettum er þetta elzt.
Sem stendur býður hlaðvarp Kjarnans upp á tólf mismunandi þætti. Þeir eru Hismið, Tæknivarpið, Glimmerkokteillinn, Hefnendurnir, Aðförin, Klikkið, Samtal við samfélagið, Kvikan, Sparkvarpið, Stóru málin, Þetta er merkilegt og Fex-hatturinn.
Ótrúleg flóra af góðum íslenskum hlaðvörpum
Guðmundur Heiðar Helgason, markaðs- og upplýsingafulltrúi Strætó, segir að hugmyndin af því að gera hlaðvörp aðgengileg í Strætó-appinu hafi meðal annars sprottið upp frá því að hann hafi langað til að ýta undir hlaðvarpsmenningu á Íslandi. „Ég stundaði nám út í London í eitt ár og notaði strætó eða lestina á hverjum degi. Ég var alltaf með hlaðvörp í eyrunum til þess að stytta mér stundirnar. Ég get ekki lesið eða verið mikið í símanum á ferð þar sem ég verð hræðilega bílveikur, þannig að hafa afþreyingu í eyrunum var fullkomin lausn. Það var mikil hlaðvarpsmenning úti og þá sérstaklega í kringum almenningssamgöngur. Mig langaði til þess að ýta frekar undir þessa menningu hérna heima og þetta verkefni er alveg í takt við þau markmið sem ég vinn eftir til að byggja upp ímynd Strætó. Svo má ekki gleyma að það er til ótrúleg flóra af góðum íslenskum hlaðvörpum og okkur langaði að vekja frekari athygli á þeim meðal notenda Strætó.“
Guðmundur segir að honum sjálfum þyki best að hlusta á hlaðvörp þegar hann er einn að ferðast. „Hvort sem að ég sé að fara í flug eða í strætó þá verður ferðin alltaf aðeins þægilegri með gott hlaðvarp í eyrunum. Það sem ég tel vera öðruvísi við hlaðvörp, í samanburði við t.d. tónlist, er að fólk sest niður og hlustar að einbeitingu á hlaðvörp á meðan tónlist verður oft að hálfgerðum bakgrunnshávaða.“
Hlaðvarpssenan mun bara stækka
Domino´s Pizza á Íslandi hefur verið frumkvöðull því að auglýsa í hlaðvörpum Kjarnans. Anna Fríða Gísladóttir, markaðsstjóri Domino´s, segir að fyrirtækinu hafi einfaldlega þótt þetta nýr og spennandi vettvangur til þess að prófa að auglýsa vörur þess. „Hlaðvarpssenan á Íslandi er í stöðugri þróun og ég hef á tilfinningunni að hún muni bara stækka, bæði hvað hlustendur og þætti varðar.“
Aðspurð um hver uppáhalds hlaðvörp hennar á Kjarnanum séu segist hún aldrei missa af sínum bestu mönnum í Hisminu. „Svo hlusta ég reglulega á Tæknivarpið. Glimmerkokteillinn er líka að koma skemmtilega á óvart en síðan fer það eiginlega eftir efnum hvað ég hlusta á. Ég er í raun að segja að ég hlusta á þau öll.“
Anna Fríða segir að hún trúi því að sífellt fleiri séu að átta sig á því hvað hlaðvörp geti verið skemmtileg og fræðandi. Þau séu lika meiri flötur fyrir samtöl milli einstaklinga frekar en t.d. það að hlusta á tónlist. „Fyrir mig persónulega hvetja hlaðvörp mig enn frekar að vera aktív en ég fer reglulega í göngutúr eða þríf heimilið hátt og lágt þegar ég sé að það er komið nýtt og spennandi hlaðvarp inn. Það getur ekki verið annað en jákvætt. Þau erlendu hlaðvörp sem ég hlusta á leggja mikið upp úr framleiðslu og í raun er oft eins og maður sé að hlusta á heimildarmynd frekar en spjall. Mér finnst hins vegar gaman að hlusta á óformleg spjöll en held að meira unnin hlaðvörp muni koma inn í auknum mæli hérlendis.“
Stjórnendur Sparkvarpsins, hlaðvarps Kjarnans um knattspyrnu, tóku upp nýjasta þátt sinn um borð í Strætó þar sem þeir fóru meðal annars yfir hvernig hinn japanski poppkúltur bjó til hinn fullkomna leikmann. Hlaðvörp Kjarnans má einnig nálgast hér.