Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi félags- og jafnréttismálaráðherra og þingmaður Viðreisnar, segir að ekki sé unnt að endurvekja traust í málaflokknum nema birta niðurstöður rannsóknar á störfum Braga Guðbrandssonar, fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu. Þetta kom fram í Silfrinu í morgun.
Velferðarráðuneytið hefur enn ekki birt opinberlega efnislegar niðurstöður úr rannsóknum á störfum Braga en komið hefur fram í máli Ásmundar Einars Daðasonar, ráðherra málaflokksins, að þeim hafi lokið með þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið tilefni til áminningar og að Bragi hafi ekki brotið af sér í starfi.
Þorsteinn segir jafnframt að það hafi vakið furðu hans að málið skyldi ekki leitt til lykta. Komið hafi upp trúnaðarbrestur, hann rannsakaður en niðurstöðurnar ekki birtar. Eðlilegt sé að þingið kalli eftir þessum niðurstöðum. Hann bendir á að víst verið sé að tefla Braga fram sem frambjóðanda Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna þá sé verið að lýsa því yfir að ekkert hafi komið fram í þessum gögnum, að allt hafi verið í lagi.
Í samtali við Stundina segist Þorsteinn telja það gríðarlega alvarlegt ef Ásmundur Einar hafi ekki greint nefndinni frá málinu með réttum hætti og haldið upplýsingum vísvitandi leyndum. „Sér í lagi í ljósi yfirlýsinga sinna í óundirbúnum fyrirspurnatíma tveimur dögum fyrr um að það væri mjög mikilvægt að nefndin færi mjög ítarlega yfir þetta mál. Hann verður að standa skil á því gagnvart þinginu hver hin efnislega niðurstaða ráðuneytisins var og hverju það sætir að hann hafi ekki greint þingmönnum frá þessu á þessum tímapunkti.“
Formaður velferðarnefndar gagnrýnir ráðherra
Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis og þingmaður Pírata, boðaði félags- og jafnréttismálaráðherra á opinn fund í velferðarnefnd sem haldinn verður á morgun, mánudag. Í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun gagnrýnir Halldóra ráðherra fyrir að hafa dregið það langt umfram lögbundinn frest, að gefa velferðarnefnd upplýsingar og niðurstöður ráðuneytisins í máli Braga. Þetta áréttar hún í Silfrinu.
„Halldóra segir að það sé rangt að ráðherra hafi haft frumkvæði að því að veita upplýsingarnar, þvert á móti hafi þau verið þrjú sem kölluðu eftir upplýsingunum. Beðið var um öll gögn í máli umkvartana barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu vegna Braga, forstjóra Barnaverndarstofu, sem er í ársleyfi. Upplýsingarnar hafi aftur á móti komið mánuði seinna,“ segir í frétt Vísis um málið.