Þeir þrír flokkar sem beittu málþófi gegn því að kosningaaldur yrði lækkaður í 16 ár í komandi sveitastjórnarkosningum njóta áberandi minni stuðnings kjósenda í yngsta aldurshópi kjósenda en þeim elstu. Flokkarnir þrír eru Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Flokkur fólksins.
Komið var í veg fyrir atkvæðagreiðslu um frumvarp sem myndi lækka kosningaaldur í komandi sveitastjórnarkosningum úr 18 árum í 16 ár þann 23. mars síðastliðinn. Það var gert með málþófi þingmanna úr Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Flokki fólksins. Hefði frumvarpið orðið að lögum hefðu um níu þúsund nýir kjósendur fengið að kjósa. Öruggur meirihluti var fyrir málinu á Alþingi.
Það er líka fylgni á milli afstöðu flokka til þess að vilja lækka kosningaaldurs og vinsælda þeirra í yngsta aldurshópnum. Samfylkingin nýtur 34,9 prósent fylgis hjá fólki undir þrítugu í Reykjavík samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar en er með 30,5 prósent fylgi heilt yfir. Vinstri græn myndu fá 12 prósent fylgi ef allir kjósendur væru yngri en þrítugt en eru með 9,7 prósent fylgi hjá öllum aldurshópum. Píratar mælast með 8,7 prósent fylgi hjá yngsta aldurshópnum en 6,8 prósent í heild og Viðreisn er með 6,4 prósent hjá fólki undir þrítugu en 5,3 prósent í heild. Framsóknarflokkurinn er einnig vinsælli hjá ungu fólk en öðrum aldurshópum, 4,1 prósent fólks undir þrítugu segir að það myndi kjósa Framsókn ef kosið yrði í dag en fylgi flokksins hjá öllum aldurshópum mælist einungis 2,8 prósent.