Sektir fyrir umferðarlagabrot um tugi þúsunda króna frá og með deginum í dag, 1. maí, samkvæmt nýrri reglugerð um sektir og önnur viðurlög fyrir umferðarlagabrot.
Sekt fyrir að tala í símann undir stýri fer úr 5.000 krónum í 40 þúsund. Sekt fyrir að aka á nagladekkjum án heimildar hækkar úr 5.000 krónum á hvern hjólbarða í 20 þúsund á hvern hjólbarða. Þá mun héðan í frá kosta 20 þúsund krónur í stað 10 þúsund að nota ekki öryggisbelti og 30 þúsund í stað 15 þúsund að virða ekki biðskyldu.
Sektir fyrir hraðaakstur aukast einnig verulega, sem og sektir fyrir akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna auk annarra umferðarlagabrota.
Lægsta sektarfjárhæð verður nú 20 þúsund krónur en var áður 5.000. Eina undantekningin þar á verður sekt fyrir að hafa ekki ökuskírteini meðferðis upp á 10 þúsund krónur.
Í tilkynningu frá Samgöngustofu segir að sektir fyrir umferðarlagabrot hafa margar hverjar verið óbreyttar í rúman áratug og mörgum þótt þær of lágar og hafa lítinn fælingarmátt. „Sektir við umferðarlagabrotum eru til þess fallnar að veita ökumönnum aukið aðhald og stuðla þannig að auknu umferðaröryggi. Nauðsynlegt er að fjárhæð sekta endurspegli alvarleika umferðarlagabrota og þá hættu sem þau skapa. Flestar sektir hækka og oft þrefalt eða fjórfalt á við það sem þær eru núna.“