Svör Ásmundar Einars Daðasonar félags- og jafnréttismálaráðherra eru ekki fullnægjandi, að mati Halldóru Mogensen, formanns velferðarnefndar Alþingis. Ráðherrann sat fyrir svörum nefndarmanna á fundi í morgun vegna umfjöllunar Stundarinnar fyrir helgi um störf Braga Guðbrandssonar, fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu.
„Það var eins og gengur og gerist að það er talað í kringum hlutina og forðast að svara já eða nei,“ segir hún í samtali við Kjarnann eftir fundinn. Hún segir að það væri óskandi að fá fullnægjandi svör en bætir við að hún sé orðin vön því á þessum vinnustað að fólk svari yfirleitt ekki með afgerandi hætti.
Henni finnst ráðherra ekki svara nægilega skýrt hverjar raunverulegar niðurstöður rannsóknar á störfum Braga voru. „Það var það sem ég var að fiska eftir,“ segir hún. Þau í nefndinni muni þrýsta á að trúnaði verði aflétt af þessum skjölum og þá muni koma í ljós þær upplýsingar sem hún hafi verið að reyna að fá frá ráðherra á fundinum.
Stundin hefur birt frumgögn málsins, það er að segja tölvupósta og símtalsútdrátt með persónugreinanlegum og viðkvæmum upplýsingum afmáðum, til að varpa ljósi á þátt Braga í málinu.
Tilnefning Braga á ábyrgð ríkisstjórnarinnar
Velferðarnefnd mun hitta Braga á miðvikudaginn næstkomandi en hann var búinn að biðja um að koma á fund nefndarinnar. Halldóra mun senda honum fundarboð í dag en ekki er búið að ákveða hvort fundurinn verði opinn eður ei en að sögn Halldóru mun það vera ákveðið seinna í dag.
Halldóra segir að tilnefning Braga sé nú algjörlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, þ.e. hvort hún ákveður hvort hún dragi tilnefninguna til baka eða ekki. Fresturinn rennur út í dag. Ef tilnefningin verður dregin til baka þá bendir Halldóra á að ekki sé möguleiki á að tilnefna annan aðila, þar sem fresturinn verður runninn út.
Ásmundur Einar sagði á fundinum í morgun að framboð Braga til þessa embættis væri ekki með beinum hætti á höndum hans ráðuneytis, heldur utanríkisráðuneytisins og fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Hann sagði að þættist vita að utanríkisráðuneytið sé að fylgjast vel með þessu máli. Aðspurður um hvort forsvaranlegt sé að skipa Braga í embættið hjá Sameinuðu þjóðunum sagði Ásmundur Einar að þegar einstaklingur hafi unnið í þessum málaflokki í áratugi sé ekki óeðlilegt að upp komi mál sem valdi ágreiningi.