Sjö hafa tilkynnt um framboð sitt til setu í stjórn HB Granda en fimm eiga sæti í stjórninni í dag. Aðalfundur félagsins fer fram 4. maí.
Þau sjö sem hafa tilkynnt um framboð til setu í stjórninni eru Albert Þór Jónsson, viðskiptafræðingur, Anna G. Sverrisdóttir, Eggert Benedikt Guðmundsson, sem var um tíma forstjóri HB Granda, Guðmundur Kristjánsson, Magnús M.S. Gústafsson, Óttar Guðjónsson og Rannveig Rist.
Eins og greint hefur verið frá, þá keypti Guðmundur Kristjánsson, forstjóri útgerðarfélagsins Brims, 34,1% eignarhlut Kristjáns Loftssonar og Halldórs Teitssonar í HB Granda.
Heildarupphæð viðskiptanna nemur tæplega 21,7 milljörðum króna. Við kaupin myndaðist yfirtökuskylda, og en miðað er við 30 prósent eignarhlut þegar yfirráð í skráðum félögum er annars vegar. Ekki er ljóst enn hversu umfangsmikil viðskiptin verða á endanum, en 30 daga frestur er gefinn til að gefa öðrum hluthöfum tilboð, eftir að yfirtökuskyldan myndast.
Íslenskir lífeyrissjóðir eru eigendur um 40 prósent hlutafjár, en líklegt er að þeir selji ekki hlut sinn í félaginu. Markaðsvirði HB Granda er nú 62,7 milljarðar en tilboð Guðmundar gerði ráð fyrir verðmiða upp á 65 milljarðar króna.
Kristján og Halldór eru báðir stjórnarmenn í HB Granda, en ásamt þeim sitja þau Rannveig Rist, Anna G. Sverrisdóttir og Hanna Ásgeirsdóttir einnig í stjórninni.
Ljóst er því að umtalsverðar breytingar verða á stjórn félagsins þar sem þrír stjórnarmenn af fimm munu hætta í stjórn.
HB Grandi er eina sjávarútvegsfyrirtækið sem skráð er á markað og nam eigið fé þess tæplega 250 milljónum evra í lok árs í fyrra, eða sem nemur um 37 milljörðum króna.