Það er að eiga sér stað „ákveðin bylting“ í flugi sem opnar ný markaðssvæði fyrir lággjaldaflugfélögum. Með nýjum flugvélum er hægt að fljúga lengra og ná þannig til nýrra svæði með ódýrari hætti en áður.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, og segir þar að Primera Air, WOW Air og Icelandair gætu verið með allt að 150 breiðþotur í rekstri innan þriggja ár, gangi vaxtaráform eftir. Við það bætast svo meira en tuttugu þotur sem eru í rekstri hjá Air Atlanta og Blubebird Cargo, en bæði félög hafa verið að vaxa og ekki útlit fyrir annað en að áframhald verði á honum.
Hrafn Þorgeirsson, forstjóri Primera Air, segir tækifærin mörg. „Það á sér stað ákveðin bylting. Nýju þoturnar gera lággjaldaflugfélögunum mögulegt að fara inn á þessar lengri leiðir sem hafa ekki verið hagkvæmar hingað til,“ segir Hrafn og vísar m.a. til flugs frá Austur-Evrópu til Asíu.
Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW Air, segir í samtali við Morgunblaðið að hann sjái vel fyrir sér, að floti félagsins verði tvöfaldaður á næstu þremur árum.
Flotinn er nú um 90 þotur en gæti aukist um allt að 60 þotur, gangi vaxtaráform eftir.
Mikil tækifæri geta falist í þessu fyrir ferðaþjónustuna, þar sem gestir gætu heimsótt Ísland frá nýjum markaðssvæðum, ekki síst í Asíu.