Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar og þingmaður Pírata, segir Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokks, sjálfan bera ábyrgð á því að svar hans við boðun á fund velferðarnefndar í gær hafi ratað til fjölmiðla.
Í samtali við mbl.is segir Halldóra að Ásmundur hafi gert „reply all“ og þannig svarað öllum sem fengu umræddan póst, en ekki bara henni sem sendi hann upprunalega. Við það sendist svar Ásmundar á alla meðlimi velferðarnefndar, forseta þingsins, ráðherra og þingflokk Pírata. „Þetta voru mistök af hans hálfu. Það átti ekki að vera neinn trúnaður um þessa tilkynningu. Ég get ekki verið ábyrg fyrir því ef hann skoðar ekki hvert pósturinn er að fara,“ segir Halldóra við mbl.is.
Hann brást við þessu í gærkvöldi með því að skrifa á Facebook-síðu sína að Halldóra væri rúin trausti og ætti að segja af sér. Þar sagðist Ásmundur ekki hafa gert sér grein „fyrir því að formaður velferðarnefndar, Halldóra Mogensen hafði bætt þingflokki Pírata inn í tölvupóstsendingar sem eingöngu áttu að berast nefndinni. Það er auðvitað grafalvarlegt mál að formaðurinn sé að blanda þingflokki Pírata inn í tölvupóstsendingar nefndarinnar sem míglekur upplýsingum úr þinginu til Stundarinnar eins og nú hefur sannast.“
