Tollar á innflutning áls og stáls til Bandaríkjanna, frá Evrópusambandsríkjum, Kanada og Mexíkó, munu ekki taka gildi í dag, eins og til stóð, heldur eftir mánuð.
Um þetta tilkynnti Hvíta húsið í gærkvöldi. Töluverð spenna var á mörkuðum, vegna þessarar ákvörðunar, enda hefur stefnu Trumps um tollastríð verið illa tekið meðal fjárfesta.
Tollarnir voru upphaflega settir á 8. mars en með undanþáguákvæðum.
Trump will delay the start of possible trade war with some of the US's closest allies https://t.co/8Afihxg4uD pic.twitter.com/B9Sss0ta7j
— Business Insider (@businessinsider) April 30, 2018
Evrópusambandsríkin, Kanada og Mexíkó fengu öll undanþágu frá 25 prósent tolli á innflutning stáls og 10 prósent á innflutning áls.
Trump hefur sagt að tollunum sé ekki síst beint að viðskiptasambandi Bandaríkjanna við Kína, en Kínverjar hafa svarað því til að tollastríð sé ekki vænlegt til árangurs, hvernig sem á það sé litið.
Bandaríkin eru raunar háð innflutningi á stáli og áli, og flytja inn um fjórfalt meira af hvoru tveggja en flutt er út.
Stórir kaupendur þessara málma eru meðal annars bíla- og vopnaframleiðendur. Talsmenn hagsmunasamtaka þessara fyrirtækja hafa harðlega mótmælt tollunum, og sagt þá grafa undan samkeppnishæfni geiranna í Bandaríkjunum.