Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari mun með liðsinni Kristínar Benediktsdóttur dósent við lagadeild Háskóla Íslands framkvæma óháða úttekt á málum Braga Guðbrandssonar og samskiptum hans við barnaverndarnefndir Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ákvað að þessi úttekt færi fram en hún er unnin að ósk Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra.
Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu kemur fram að í úttektinni verði farið yfir fyrirliggjandi gögn málsins og málsmeðferð viðkomandi stjórnvalda, það er þeirra barnaverndarnefnda sem tengjast viðkomandi málum, Barnaverndarstofu og velferðarráðuneytis.
Niðurstaða úttektarinnar mun liggja fyrir í byrjun júní. Henni verður skilað til ríkisstjórnar og í kjölfarið birt opinberlega.
Stundin birti á föstudag umfjöllun þar sem fram kom að Bragi hafi beitt sér fyrir því að maður fengi að umgangast dætur sínar sem hann var grunaður um kynferðisbrot gegn.