Jarðböðin við Mývatn voru um síðustu áramót metin á 4,5 milljarða króna og jókst virði þeirra um 1,3 milljarða eða ríflega 40 prósent í fyrra.
Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti, í dag.
Til samanburðar var bað-staðurinn metinn á um 900 milljónir í lok árs 2014. Með auknum ferðamannastraumi til landsins hafa opnast ný tækifæri fyrir Jarðböðin, en um 220 þúsund gestir komu í þau í fyrra, og er gert ráð fyrir um 5 prósent aukningu á þessu ári.
Upplýsingar um virði Jarðbaðanna, sem voru opnuð í júní árið 2004, má lesa úr nýjum ársreikningi KEA, meirihlutaeiganda fjárfestingafélagsins Tækifæris sem er stærsti hluthafi baðstaðarins með um 40,6 prósenta hlut. Umræddur hlutur var metinn á 1.827 milljónir króna í lok síðasta árs í bókum KEA borið saman við 1.282 milljónir í árslok 2016, að því er segir í Markaðnum.
Akureyrarbær seldi 15 prósenta hlut í Tækifæri í janúar árið 2016 fyrir 116 milljónir króna en miðað við bókfært virði baðstaðarins í lok síðasta árs er sá hlutur nú metinn á ríflega 270 milljónir.