Viðskiptafræðinám með vinnu verður aflagt í haust vegna fjárskorts, og hefur nemendum verið tilkynnt um þetta.
Einn þeirra nemenda sem hefur sótt nám í gegnum þess námsleið, og líkað vel, gagnrýnir í samtali við Kjarnann, hversu lítill fyrirvari er gefinn á þessari breytingu. Betra hefði verið að gefa ársfyrirvara eða meira, til að koma til móts við nemenedur.
Í orðsendingu frá námsleiðinni til nemenda, segir að erfið fjárhagsstaða námsins hafi gert þetta nauðsynlegt. „Við verðum því miður að tilkynna ykkur að stjórn VMV (viðskiptafræði með vinnu) hefur ákveðið að fara ekki af stað með námið haustið 2018 vegna erfiðrar fjárhagsstöðu námsins. Það er miður að geta ekki boðið upp á VMV nám áfram. Við vitum að þessi ákvörðun kemur sér illa fyrir þá sem hafa gert ráðstafanir um að stunda áfram námið og viljum því benda á nokkra valmöguleika, viðskiptafræðideild Háskóla Íslands (hefðbundið staðarnám), fjarnám við Háskólann á Akureyri (umsóknarfrestur til 5. júní) og fjarnám við Háskólann á Bifröst (umsóknarfrestur til 15. júní),“ segir í tölvupóstinum.