Íslenskir lífeyrissjóðir eiga, í félagi við aðra íslenska fjárfesta, tæplega 40 prósent hlut í félaginu Cambridge Plaza Hotel Company ehf. sem á bygginguna sem á að hýsa væntanlegt Marriott Edition hótelið sem verið er að byggja við hlið Hörpu. Morgunblaðið greindi frá því í gær að allt stefni í að framkvæmdir við byggingu hótelsins muni fara milljarða króna fram úr áætlunum.
Blaðið greinir frá því í dag að umrætt félag, Cambridge Plaza Hotel Company ehf. sé hins vegar í meirihluta eigu hollenska félagsins Cambridge Netherlands Investors B.V. Eigendur þess eru bandaríska fasteignaþróunarfélagið Carpenter & Company og íslenski fjárfestirinn Eggert Þór Dagbjartsson. Eignarhlutur lífeyrissjóðanna er vistaður í félaginu Mandólín ehf. Stærsti eigandi þess er SÍA III slhf., félag sem sjóðstýringarfyrirtækið Stefnir, í rekstri Arion banka, rekur.
Stefnir er rekið af Arion banka sem seldi byggingarréttinn undir Marriott hótelið og er auk þess stærsti lánveitandi verkefnisins. Morgunblaðið segir frá því í dag að Almenni lífeyrissjóðurinn og Festa lífeyrissjóður séu einnig beinir eigendur að Mandólín.