Persónuvernd hefur hafið frumkvæðisathugun á gagnaafhendingu Barnaverndarstofu til Stundarinnar og RÚV, auk þess sem málið er til skoðunar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Forstjóri Barnaverndarstofu neitar því að hafa brotið lög. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Umrædd gögn sem afhent voru til Stundarinnar og RÚV sneri að afskiptum fyrrverandi forstjóra stofunnar, Braga Guðbrandssonar, en fjölmiðlarnir tveir kröfðust þeirra eftir að vísbendingar lægju fyrir að hann hefði haft óeðlileg afskipti í einstaka málum í starfi. Meðal annarra hafði gagnapakkinn að geyma einstök barnaverndarmál, deilur foreldra um umgengnisrétt við börn og fundargerðir barnaverndarstofu. Öll nöfn og kennitölur voru afmáð úr gögnunum.
Gögnin persónurekjanleg
Samkvæmt Fréttablaðinu eru gögnin enn persónurekjanleg, þrátt fyrir að nöfn og kennitölur einstaklinga finnist ekki í þeim. Í persónuverndarlögum er farið fram á leynd gagna, sé á einhvern hátt hægt að rekja upplýsingar til tiltekinna einstaklinga.
„Gögn sem þessi eru líkast til viðkvæmustu upplýsingarnar sem hægt er að komast í. Það er því mikilvægt að skoða hvernig vinnslu persónugreinanlegra upplýsinga var háttað í þessu tilviki. Við höfum skoðað málið eins og það liggur fyrir núna og teljum ástæðu til að hefja frumkvæðisathugun,“ segir Vigdís Eva Líndal, skrifstofustjóri upplýsingaöryggis hjá Persónuvernd í samtali við Fréttablaðið.
Til skoðunar hjá lögreglu og ráðherra
Samkvæmt Heiðu Björg Pálmadóttur, forstjóra Barnaverndarstofu, var beiðni fjölmiðlanna um upplýsingar unnin samkvæmt lögum og í samráði við lögfræðinga stofnunarinnar. Jafnframt heldur hún því fram að engin lög hafi verið brotin.
Innan lögreglunnar er málið hins vegar litið alvarlegum augum, en Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði málið á borði ákærusviðs. Ásmundur Einar Daðason, velferðarráðherra, sagði málið einnig vera alvarlegt og til skoðunar, en hann muni funda við forsvarsmenn Barnaverndarstofu í næstu viku til að fara yfir þessi mál.