Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri Mannvits og fyrrverandi forstjóri VÍS, hefur tilkynnt stjórn félagsins um að hún hyggist hætta störfum, eftir fimm mánuði í starfi.
Ástæðan er sú að sýn Sigrúnar Rögnu fór ekki saman við sýn eigenda Mannvits hafi ekki farið saman, og því sé best að leiðir skilji.
Í tilkynningu, sem vísað er til á vef Vísis, segist hún óska starfsfólki alls hins besta. „Það var spennandi og áhugavert að koma inn í fyrirtækið og kynnast nýrri atvinnugrein. Framtíðarsýn mín og lykileigenda fer þó ekki saman og því er best að ljúka þessu nú á sem farsælastan hátt. Ég óska öllu því góða fólki sem starfar hjá Mannviti góðs gengis og þakka fyrir samstarfið,“ segir Sigrún Ragna.
Stjórnarformaður Mannvits er Jón Már Halldórsson. Hann segist í tilkynningu, óska Sigrúnu Rögnu velfarðnar. „Við þökkum Sigrúnu kærlega fyrir vel unnin störf og óskum henni velfarnaðar í því sem hún tekur sér fyrir hendur,“ segir Jón Már.
Aðrir í stjórn Mannvits eru Anna Þórunn Björnsdóttir, Gunnar Herbertsson, Ólöf Kristjánsdóttir og Sigurður Sigurjónsson.
Fyrirtækið sinnir verkfræði- og tækniþjónustu, á Íslandi og á alþjóðavettvangi.