Tuttugu þjónustufulltrúar í Hörpu hafa ákveðið að segja upp störfum sínum í kjölfar fundar með Svanhildi Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu, í dag.
Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá fulltrúunum.
Ástæðan er óánægja með launahækkun forstjórans, upp á um 20 prósent, en stutt er síðan að starfsfólk í Hörpu tók á sig launalækkanir vegna erfiðleika í rekstri.
Fundurinn var boðaður eftir fréttir um þjónustufulltrúa í Hörpu sem ofbauð svo launahækkun Svanhildar að hann sagði upp. „Stuttu eftir að laun forstjóra voru hækkuð af stjórn Hörpu, voru laun þjónustufulltrúa lækkuð. Á fundinum staðfesti Svanhildur að þjónustufulltrúar Hörpu væru einu starfsmennirnir sem gert var að taka á sig beina launalækkun. Hópur starfsmanna sem þá þegar var launalægstur allra starfsmanna Hörpu,“ segir í tilkynningu.
Eftir fundinn voru margir þjónustufulltrúar ósáttir við skýringar forstjórans, samkvæmt tilkynningunni, þá sérstaklega um það af hverju engir aðrir starfsmenn hússins hafi þurft að taka á sig launalækkun.
Ákváðu því allir þjónustufulltrúar sem sátu fundinn að segja þegar upp störfum, 15 talsins og nokkrir aðrir í kjölfarið. „Meðal þeirra sem sögðu upp voru t.d. nokkrir búnir að vinna í Hörpu frá opnun og flestir með langan starfsaldur, meðal annars allir vaktstjórar [...] Svanhildur talaði um að á sínum tíma eða í september 2017, hefðu launalækkanir þjónustufulltrúa verið mildar aðgerðir sem væru hluti af samstilltu átaki um að rétta af fjárhag Hörpu. Af þessu má sjá að ákveðið misræmi er greinilega í þeirri staðhæfingu þar sem aðeins lægst launuðu starfsmenn hússins hafa tekið á sig beina launalækkun,“ segir í tilkynningunni.
Íslenska ríkið á 54 prósent í Hörpu en Reykjavíkurborg 46 prósent.