Fjármálaeftirlitið (FME) gerði athugasemd við að rekstrarsamningur Stefnis hf. við „tiltekið félag“, eins og orðrétt segir í tilkynningu FME, samræmdist ekki starfsheimildum félagsins samkvæmt 27. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá FME.
Stefnir er dótturfélag Arion banka og er með um 300 milljarða króna í eignastýringu.
Í tilkynningunni segir enn fremur að starfsheimildir rekstrarfélaga séu tæmandi taldar í lögum og „fellur bein aðild Stefnis hf. að slíkum rekstrarsamningi ekki þar innan.“
FME taldi að áhættustýringarstefna Stefnis hf. uppfyllti ekki að fullu ákvæði 6. kafla reglugerðar nr. 471/2014 og gerði athugasemd við að í stefnuna vantaði ítarlegri skilgreiningar og umfjöllun um nokkrar tegundir áhættu, að því er segir í tilkynningu FME.
Fjármálaeftirlitið hóf athugun á tilgreindum þáttum áhættustýringar hjá Stefni hf., sem hefur starfsleyfi sem rekstrarfélag verðbréfasjóða, í október 2017.
Markmið athugunarinnar var meðal
annars að fá yfirsýn yfir verklag félagsins og ferla varðandi ákvarðanatöku við fjárfestingar og
leggja mat á fyrirkomulag og virkni innra eftirlits og áhættustýringar, með tilliti til laga nr.
128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði og reglugerðar nr. 471/2014
um skipulagskröfur rekstrarfélaga.
Stefnir hf. hefur upplýst Fjármálaeftirlitið um að gripið hefur verið til viðeigandi ráðstafana til að bæta úr þeim atriðum er lutu að athugasemdinni, að því er segir í tilkynningu FME.
Athugasemd var gerð við að Stefnir hf. lét á tímabilinu 1. júlí 2016 til 30. júní 2017 hjá líða að tilkynna til Fjármálaeftirlitsins alls sjö tilvik er fjárfestingar fóru umfram leyfileg mörk fjárfestingarheimilda laga.
Jafnframt gerði Fjármálaeftirlitið athugasemd við það að eign fjárfestingarsjóðs í rekstri Stefnis hf. í útgáfu skuldabréfa hafi verið umfram fjárfestingarheimildir laga sbr. 1. mgr. 59. gr. sbr. 2. tl. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 128/2011 í tvö ár. Með hliðsjón af atvikum máls og þeim úrbótum sem Stefnir hf. hefur gripið til með breytingum á verklagi í tengslum við tilkynningar á frávikum frá fjárfestingarmörkum til Fjármálaeftirlitsins ákvað eftirlitið að beita félagið ekki viðurlögum vegna málsins.