Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti fyrir stundu að hann ætli að draga Bandaríkin úr kjarnorkusamkomulaginu við Írani. Hann sagði samkomulagið, sem var gert árið 2015 í tíð Barack Obama, hafa verið stór mistök sem hefðu gert Íran mögulegt að styrkja hryðjuverkastarfsemi og vinna áfram leynilega að uppbyggingu kjarnorkuvopna.
Hann vitnaði til gagna frá Ísraelsstjórn sem sýndu með óyggjandi hætti að Íran væri að brjóta gegn samkomulaginu.
Samkomulagið er frá árinu 2015 en Bandaríkin, Frakkland, Bretland, Rússland, Kína, Þýskaland og Evrópusambandið stóðu að samkomulaginu við Íran, sem þvingaði Íranstjórn til að takmarka kjarnorkuvopnaframleiðslu sína, og þá voru efnahagsþvinganir gagnvart Íran felldar niður.
John Kerry can’t get over the fact that he had his chance and blew it! Stay away from negotiations John, you are hurting your country!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) May 8, 2018
Þetta opnaði meðal annars á möguleikann á því fyrir Íran að selja olíu á heimsmarkaði, en alþjóðlegar efnahagsþvinganir höfðu gert það að verkum, að þau viðskipti voru landinu erfið.
Trump sagði að það væri hans markmið, að færa Íran aftur í hendur fólksins í landinu. Það ætti að ráða ferðinni, en ekki ógnarstjórnin sem hefði haldið um valdaþræðina alltof lengi.
Trump sagðist enn fremur ætla að boða harðar efnahagslegar þvinganir gagnvart Íran, og þær yrðu „þær hörðustu, nokkru sinni“.